02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

59. mál, sóknargjöld

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) kvaðst ekki skilja, að stjórnin væri að gera veður út af aðferð nefndarinnar í þessu máli. Okkur kemur saman um þetta. Jeg sagði beint, að jeg væri ekki að gera veður út úr því, en að það væri ilt fordæmi og óþinglegt.

Jeg geri lítið úr þeirri ástæðu, að frv. mundi gera prestana óvinsæla. Jeg er alveg viss um, að það er gripið úr lausu lofti. Almenningur er altof skynsamur til þess að láta það koma niður á prestunum, þó að lögin yrðu ef til vill óvinsæl. Jeg hefi aldrei heyrt, að núgildandi lög um prestsgjöld hafi gert prestana óvinsæla, á meðan þau sjálf voru óvinsæl. Jeg sje enga ástæðu til að deila við háttv. nefnd frekar. Jeg get aðeins ekki skilið, að ekki þurfi að tvöfalda gjaldið. Ef þess þarf ekki, þá hefir það áður verið of hátt, því að gjöld kirkna hafa margfaldast, og engar líkur til þess, að þau verði þeim mun lægri í náinni framtíð. Má vera, að gjaldið, eins og nefndin hefir lagt til að það verði, sje nógu hátt í margmennum söfnuðum, en í fámennum söfnuðum nægði það áreiðanlega ekki.

Mismunurinn á frv. nefndarinnar og þessu atriði í frv. stjórnarinnar er svo lítill, að jeg skal ekki fjölyrða frekar um hann.