15.04.1921
Neðri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

101. mál, slysatrygging sjómanna

Jón Baldvinsson:

Háttv. 2. þm. Ám. (Þorl. G.) sagði, að þeir, sem reru upp á hlut austan fjalls, greiddu gjaldið sjálfir, og er það eðlilegt, af því að þeir fá hlutdeild í aflanum. Og það gildir vitanlega einu, hvort þetta gjald yrði tekið af óskiftum eða skiftum afla. En það eru fæstir sjómenn, sem fá hlutdeild í afla, og eiga þeir því ekki að greiða gjaldið, heldur útgerðin.

Mjer þykir leiðinlegt, að háttv. þm. (Þorl. G.) skuli ekki geta fallist á till. mína, því að í raun og veru erum við sammála. Og mjer þætti leitt, ef háttv. þm. (Þorl. G.) yrði svo lengi að átta sig á sínum eigin skoðunum, að hann væri ekki búinu að því fyrir atkvgr.

Jeg veit ekki, hvort það er svara vert, að jeg hafi tekið dæmið þaðan, sem alþýðan er kúguð mest, enda var alt alþýðuhjal háttv. þm. (Þorl. G.) nauðaómerkilegt, og sumt hrein öfugmæli. Jeg get þó bent á, að í Danmörku þykir alþýðan ekki kúguð meira en annarsstaðar, nema síður sje, og er sama fyrirkomulag þar og jeg vil hafa hjer. Þaðan höfum við fengið margt, og sumt ef til vill ekki sem heppilegast, og væri þá ekki úr vegi að taka Dani líka til fyrirmyndar, þar sem það er til bóta.

Að endingu skal jeg játa það, að jeg skil ekki niðurstöðu háttv. þm. (Þorl. G.). Jeg efast um, að hann skilji hana sjálfur, að minsta kosti breytir hann öfugt við hana austan fjalls, þar sem hann segir, að útgerðin borgi iðgjöldin fyrir sjómennina, ef þeir eru ráðnir upp á kaup. En þetta fer mín till. fram á; og hvernig getur þá háttv. þm. (Þorl. G.) verið á móti henni?