15.02.1921
Sameinað þing: 1. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

Rannsókn kjörbréfa

Jakob Möller:

Jeg verð að byrja á því að leiðrjetta það, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni, að kærumál þetta væri risið út af því, að einn flokkur hefði orðið fyrir vonbrigðum. Það hefir líklega aðeins verið einn maður, sem orðið hefir fyrir vonbrigðunum, og verður því víst að taka vægt á þeim óróa sálarinnar, sem þar er, og ræða það atriði ekki frekar.

Þó vil jeg geta þess aftur, að vitanlegt er, að þessi kæra er runnin frá stuðningsmönnum D-listans, eins og einnig hefir komið greinilega fram í umræðunum hjer.

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) fór að blanda inn í þetta afstöðu minni til stjórnarinnar. Út í það mál er óþarfi að fara langt að þessu sinni, það mun skýrast á sínum tíma, auk þess, sem jeg hefi margskýrt það á fundum hjer í bænum. En hins vil jeg þó geta, að þessi háttv. þm. muni sjálfur ekki hafa verið ófúsari en hver annar á það að styðja stjórnina í fyrra, svona með vissum skilyrðum.

Að því er aðalatriðið snertir, að öðru leyti, er mjer það ekki ljóst, hvaða gildi nýjar kosningar ættu að hafa, eða hvernig ætti svo sem að koma þeim fyrir öðruvísi en þeim síðustu. Yrðu þær kosningar ekki hlutbundnar eins og áður? Yrði ekki kosið eftir sömu kjörskrám? Eða á að svifta kjósendurna kosningarjettinum rjett á meðan verið er að kjósa, og gefa þeim hann svo aftur á eftir. En ef kosningin fer fram á sama hátt og eftir sömu kjörskrám, þá væri ógildingin ekkert annað en skrípaleikur, enda þykist jeg þess nú viss, að mikill meiri hluti geti fallist á að taka kosninguna gilda, þrátt fyrir formgallana.