14.03.1921
Neðri deild: 22. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

34. mál, landsreikningar 1918 og 1919

Jón Þorláksson:

Jeg var þessa dagana að kynna mjer, hvað Sigurður Eggerz, fyrverandi fjármálaráðherra, hafði sagt um afkomu ársins 1919 og fjárhag landssjóðs þá. Jeg reyndi síðan að bera saman hvernig þetta hefði komið heim við veruleikann. Jeg bjóst við því satt að segja, að niðurstaða hans yrði önnur en þáverandi ráðherra, en jeg komst brátt að raun um, að það er mjög erfitt að sjá af landsreikningunum. hvernig rekstur landsbúsins hefir gengið, hvort halli eða afgangur hefir orðið á árinu. Það kemur að vísu fram upphæð á reikningunum, sem nefnd er tekjuafgangur eða tekjuhalli, en það eru alt aðrar tölur en menn eru vanir að tákna með því heiti. Áður fyr, meðan allur rekstur ríkissjóðs var óbrotnari og einfaldari, var auðvelt að sjá þetta, en nú er alt orðið flóknara. Landið er farið að reka viðskifti, taka lán, og ekki sjest á landsreikningnum hvort afgangur er eða ekki. Háttv. þm. hafa engin önnur gögn um þetta en skýrslu ráðherra í þingbyrjun, því reikningurinn hefir verið saminn með fullkominni fyrirlitningu fyrir því, að ná þessari niðurstöðu. Það má benda á, að vextir og afborganir er ekki aðgreint, en er það þó sitt hvað, og sjerstaklega er ílt að átta sig á þessu þegar afborganir fara fram úr því sem umsamið er. Þessir liðir heyra ekki saman og eiga að vera aðgreindir.

Með landsreikningnum fylgir skýrsla yfir eignir og skuldir ríkisins. Jeg fór að kynna mjer hana, en af henni verður ekki sjeð, hvernig rekstur ríkisins hefir gengið, að minsta kosti ekki nema að bera hana lið fyrir lið saman við skýrslu fyrirfarandi árs. Í þessa skýrslu eru teknar eignir, sem breytast ár frá ári, en eru landsreikningnum óviðkomandi. Þetta eru ýmsir sjóðir, og jafnvel varasjóður Landsbankans með talinn. Þessi skýrsla endar á því að gefa upp einhverja upphæð sem eign, aðra sem skuld, en enginn er nokkru nær hvort halli eða afgangur hefir verið á árinu. Landsreikningarnir eiga að sýna. hvort tekjur hrökkva fyrir gjöldum, og á þeim er ófært form, ef ekki er hægt að sjá þetta fyrirhafnarlítið eða fyrirhafnarlaust. Jeg vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjrh. (M.G.). hvort hann hafi ekki fundið til þessa, og hvort ekki mundi hægt að kippa því í lag.