14.03.1921
Neðri deild: 22. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

34. mál, landsreikningar 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (M.G.):

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) kvartaði undan því, að hann gæti ekki fundið af landsreikningnum hvort tekjuafgangur væri eða ekki. Jeg skil þetta vel, ef hann vill ekki verja dálitlum tíma til þess að rannsaka þetta. Ástæðan til þessa er annars sú, að tekjuafgangur getur ekki komið fram á reikningnum þegar lán eru tekin, því að lánin verður að færa til tekna, en afborganir til gjalda. Annars er alls ekki svo erfitt að finna þetta. Hv. þm. (J.Þ.) þarf að eins að bera saman fáeinar tölur og draga frá og leggja við. eftir því seni við á. Auðvitað mætti búa til sjerstakan reikning, sem sýndi það, er háttv. þm. óskar, en slíkan reikning getur hver einstakur svo hæglega búið til, eins og jeg þegar hefi getið um. En á meðan fjhn. og yfirskoðunarmenn landsreikninganna og Alþingi hafa ekkert haft við form reikningsins að athuga. Þá hefi jeg enga ástæðu fundið til að breyta þessu, en jeg get skilið, að dálítið sje erfitt fyrir ókunnuga að átta sig á reikningnum, því að í frv. er hann mjög dreginn saman, eins og venja er til, enda er svo um alla aðalreikninga. t. d. bankareikninga og reikninga Eimskipafjel. Íslands, að ef fá á skýrslur um ýms atriði, verður að leita í reikningum og skjölum, sem aðalreikningurinn er bygður á.