14.03.1921
Neðri deild: 22. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

34. mál, landsreikningar 1918 og 1919

Jakob Möller:

Jeg ætla ekki að blanda mjer í þessa deilu. Að eins skal jeg geta þess, að fjárhagsnefndin sá sjer ekki fært að athuga landsreikninginn „kritiskt“, og til þess hafði hún engan tíma. Hún hefir að eins sannfært sig um, að reikningslagafrv. það, sem hjer liggur fyrir, sje rjett, samkvæmt landsreikningunum, eins og þeir eru birtir með athugasemdum yfirskoðunarmanna.

En út af einni athugasemdinni vildi jeg þó leyfa mjer að gera fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra (M.G.). Það er 41. aths. við reikninginn 1919. Þar er þess getið, að í skýrslum um eignir og skuldir ríkisins, sem reikningnum fylgi, sje varasjóður landsversl. talinn kr. 2044208.96, en í reikningi landsverslunar sjálfrar sje hann talinn 2182972.56, og er mismunurinn þannig kr. 138763.60. Í svörum ráðh. er sú grein gerð fyrir þessum mismun, að hann stafi af því, að landsverslunin hafi litið svo á, að ríkissjóður ætti að bera kostnað við sykur- og matarskömtun 1917–18 og greiða helming erindrekakostnaðar í Ameríku, en stjórnin talið að landsverslunin ætti að bera þennan kostnað. — Þessi kostnaður virðist nú vera allhár, og í raun og veru virðist hann eiga heima í 19. gr. — óvissum útgjöldum í landsreikningnum — því hjer er vitanlega um útgjöld ríkisins að ræða, öllu fremur en landsverslunarinnar. Reikninga landsverslunarinnar hefir nefndin ekki haft neitt tækifæri til að athuga, og væri því ástæða til að spyrja, hvort þar væru fleiri slíkar upphæðir færðar til gjalda, sem í raun og veru ættu heima í „óvissum útgjöldum“ ríkissjóðs, sem vissulega hafa þó þessi árin orðið freklega það, sem við mátti búast. Þau hafa verið áætluð 40 þús. kr. bæði árin, en orðið yfir 470 þús., og óviss útgjöld þó í raun og veru færð til gjalda á fleiri liðum, t. d. að minsta kosti 22. gr. — En það, sem jeg þó aðallega ætlaði að spyrja um, er það. hvernig þessi upphæð. þessar kr. 138763.60, sundurliðist; hvað sje kostnaður við matarskömtun og hvað hálfur erindrekakostnaður í Ameríku. Er ekki ósennilegt, að hv. þm. þyki það þess vert að fá vitneskju um kostnaðinn við matarskömtunina, þar sem slík skömtun á sjer nú stað. Þá er og fróðlegt að fá að vita nákvæmlega um erindrekakostnaðinn, t. d. til samanburðar við „kostnaðinn við veru Björns Sigurðssonar í London“, sem varð um 30 þús. kr. hvort árið, en hjer er að eins hálfur erindrekakostnaðurinn í

Ameríku væntanlega allverulegur hluti af þessum 138 þús.

Jeg get nú búist við því, að hæstv. fjrh. (M. G.) hafi ekki þessar tölur á reiðum höndum. eða „í höfðinu“, en vænti þess þá, að hann gefi þessar upplýsingar við 3. umr.