18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1926 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Hákon Kristófersson:

Af því að jeg var á móti þessu máli 1919, þykir mjer hlýða að gera nú grein fyrir atkvæði mínu. — Þetta er vandræðamál, og ætti helst ekki að koma til þingsins kasta. Jeg geng þess ekki dulinn, að misrjetti hafi átt sjer stað í þessu efni, og þó að jeg sje ekki fyllilega ánægður með frv., mun jeg þó greiða því atkvæði til 3. umr.

Jeg finn mörg missmíði á frv., sem ef til vill má laga, og get jeg þar bent á 2. gr. Það er ófært að ákveða hvíldartíma háseta á höfnum, því að þar getur oft legið mikið við, og verður háseti að eiga við skipstjóra um hvíld sína, enda er það stundum nauðsynlegt, að hásetar vinni sem allra mest á höfnum inni, því að oft getur það munað miklu á afla, ef skipin hafa góða afgreiðslu í inniverum, þ. e. a. s. við að losa og því um líkt.

Þá tel jeg ákvæði 3. gr. vafasöm og held, að erfitt verði að koma þessu við á smærri skipum.

Hvað sektunum viðvíkur, þá verð jeg að telja þær óhæfilega háar. Það nær ekki nokkurri átt að sekta um 2000 kr., hvað lítið sem út af er brugðið.

Jeg tók svo eftir, að háttv. frsm. meiri hl. (J. B.) segði, að frv. væri eins og frv. 1919, en allir geta sannfært sig um, að svo er ekki, enda held jeg, að þetta hafi verið mismæli, háttv. þm. (J. B.) hafi viljað segja, að frv. væri sama eðlis.

Jeg rengi háseta og málsvara þeirra ekki um það, að meðferð sjómannanna hafi verið óhæfileg á stundum, og er sjálfsagt að reyna að bæta úr því. En eðlilegast hefði jeg talið, að slíkt hefði orðið með samkomulagi, og þó að aðalatriði frv. geti ef til vill ekki orðið samkomulagsatriði, þá eru þó ýms smærri atriði, sem jeg tel rangt að lögfesta, áður en vitað er, hvort ekki sje hægt að semja um bað. Jeg lít svo á, að það ætti að vera hagur útgerðarmanna, að ofbjóða ekki hásetum með vinnu og vökum, því að það styður ekki að miklum afla að hafa uppgefna menn til að taka á móti honum, auk þess sem það spillir heilsu viðkomandi sjómanna, og, eftir því sem frsm. meiri hl. (J. B.) segir, styttir líf þeirra.

En hvernig sem að öðru leyti fer um frv. þetta, þá er jeg ekkert hræddur um, að áhrif þess nái til landbúnaðarins. Enda þykist jeg þekkja svo staðfestu og þrótt bænda og alþýðu úti um sveitir þessa lands, að þeir verði ekki svo ginkeyptir fyrir hinum nýja tíma, sem virðist ríkja hjer í bæ, og að áhrif borgarlífsins berist því ekki hröðum fetum út um landið. Þess vegna vil jeg mótmæla þeim orðum háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.), að meiri hluti sjútvn. sje með nál. sínu að skjóta okkur þingdeildarbændum skelk í bringu. Og ekki skil jeg það heldur sem ögrun til okkar, þó að sjómenn kæmu hingað inn í deildina í búningi sínum, sem jeg ber fulla virðingu fyrir.

Jeg ætla að vera hjer óhlutdrægur, og um leið og jeg álykta, að háttv. frsm. minni hl. (P. O.) hafi alls ekki í áliti sínu nje með ræðu sinni viljað hræða okkur landbændur, tek jeg orð háttv. frsm. meiri hl. (J. B.) ekki sem hótun, því hann sagði, að sjómennirnir myndu koma hingað í öðrum erindum.

Háttv. frsm. meiri hl. (J. B.) gerði mikið úr því, hvað vinnan á togurunum væri miklu erfiðari en annarsstaðar. Þessu vil jeg ekki neita, þó mjer hins vegar þyki undarlegt, hvað margir sækjast eftir henni, því að það hefi jeg fyrir satt, að þar sjeu oft tíu fyrir einn, sem komast vilja á togara. Þetta var að mörgu leyti eðlilegt áður fyr, því að þá var þessi vinna langtum betur borguð, en nú mun arðsvonin minni, enda fullyrt, að vinnan hafi minkað að sama skapi.

Jeg fyrir mitt leyti vildi leyfa frv. þessu að fara til 3. umr., og vona svo, að hv. nefnd sjái sjer fært að breyta því í þá átt, sem minst hefir verið á, áður en því verður hleypt út úr deildinni.

Jeg geri sem sje ekki ráð fyrir, að háttv. flm. (J. B.) taki frv. aftur, eins og háttv. samþm. hans (J. Þ.) benti á, og geymi það t. d. til næsta þings, eða þangað til útsjeð er um, að engir samningar geti tekist um þetta mál á milli háseta og útgerðarmanna.

Jeg geri nú ráð fyrir, að það sje meira í gamni mælt en alvöru, að sjómenn haldi áfram, þangað til þeir fái 12 stunda óslitinn hvíldartíma í sólarhring.

Annars má nú kannske hártoga þessi orð: óslitinn hvíldartími. Það getur bæði verið svefn og vinnuhlje, en kunni menn ekki við orðavalið, mætti lagfæra það fyrir 3. umr.

Jeg tek það þá fram aftur, að jeg mun fylgja frv. til 3. umr., en treysti mjer heldur ekki til að fara lengra, ef það tekur engum breytingum í þá átt, sem bent hefir verið á.