18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg ætla ekki að blanda mjer inn í deilur þær, sem upp hafa risið milli meiri og minni hluta hv. sjútvn., en jeg vildi leyfa mjer að benda á ýms atriði frv., sem eru þess valdandi, að jeg get ekki gengið að því óbreyttu.

Allir eru sammála um það, að misbeiting á vinnuafli háseta á togurum hafi átt sjer stað, og allir játa líka, að slík misbeiting hafi sjerstaklega átt sjer stað á fyrstu árum togaraútgerðarinnar.

Mjer er enn í fersku minni, að á árunum 1910–14 sá jeg svo mikið af slíku, að mjer alveg ofbauð; jeg sá togarana koma inn á Ísafjörð með mennina úttaugaða og úrvinda í svefni. En þetta er ekkert einsdæmi með háseta á togurum; svona getur það líka verið á öðrum skipum. Jeg hefi sjálfur róið í 19 vertíðir, og þekki vel þá erfiðleika, sem það er bundið að reka þessa atvinnu, og það hefir komið fyrir mig, að jeg hafi orðið að vaka 70 stundir samfleytt, en auðvitað fyrir góða borgun.

Jeg bendi á þetta til þess að sýna fram á, að sjósóknin er svo háð vindi og veðri, að óhjákvæmilegt verður að leggja á sig vökur og erfiði til bjargar útveginum. Og sjerstaklega verður ekki hjá þessu komist á smærri skipum og mótorbátum. En um togarana er öðru máli að gegna. Þar er minni ástæða til að leggja slíkt erfiði á hásetana, enda hefir það verið gert úr hófi fram og öllum málsaðiljum til stórskaða. Jeg segi að það hafi verið, en þetta hefir breyst til hins betra, enda ber þeim báðum saman um það, háttv. meiri og minni hl., að þetta sje að lagast, og nú sje langt um betra eftirlit með því, að hásetum sje ekki ofboðið, enda sjá bæði útgerðarmenn og skipstjórar, sem vilja á það líta með sanngirni og hyggindum, að það sje nauðsynlegt að ofþjaka ekki hásetunum.

En, sem sagt, að þetta sje að lagast hafa allir fallist á, og háttv. frsm. meiri hl. (J. B.) þó sjerstaklega, þar sem að hann um misbeiting þessa nefndi ekki yngri dæmi en frá 1916–17. (H. K.: Ætli það sjeu ekki til yngri dæmi?). Jú, það geta verið nýrri dæmi, en þau geta líka verið þann veg, að skipstjórarnir hafi enga sök á þeim átt og ekkert við þau ráðið. Menn geta auðvitað vakað of lengi, en jeg tel engum manni hættu stafa af því, þó að hann vaki 1 sólarhring.

Það eru ýmsar ástæður til þess, að jeg get ekki fylgt frv. þessu eins og það er nú, enda þótt jeg viðurkenni, að þessi 6 tíma hvíld í sólarhring sje í alla staði sanngjörn.

En það hagar svo til víða hjer við land, að ekki verður hægt að framfylgja þessu ákvæði þegar skipin eru við veiðar, t. d. á haustvertíð fyrir Vesturlandi, veit jeg bæði af eigin sjón — þar sem skipin eru inni í höfnum annan og þriðja hvern dag vegna óveðra — og sögusögnum annara manna, að mjög erfitt verður að veita þessa 6 stunda hvíld á hverjum sólarhring. Það hagar sem sje svo til fyrir Vesturlandi, að á haustvertíð geta skipin aðeins verið að veiðum frá því um óttu til miðaftans, en þá er eftir að gera að aflanum, og frá honum er ekki hægt að ganga og geyma hann til næsta dags, bæði vegna frosta og annara hluta.

Þess vegna mundi jeg geta fylgt frv. þessu, ef háttv. meiri hluti sæi sjer fært að breyta hvíldartímanum þann veg, að hann yrði aðeins lögskipaður frá 1. apríl til 15. maí. Og þetta byggi jeg á því, að með því að hafa hann lögskipaðan alt árið, hlýtur aflavonin að minka, að minsta kosti fyrir Vesturlandi, eins og jeg hefi bent á.

Háttv. frsm. meiri hlutans (J. B.) sagði, að veður hömluðu oft veiðum á öðrum skipum, þegar botnvörpungarnir gætu haldið áfram. Þetta mun að líkindum eiga sjer stað hjer við Suðurland. En á Vestfjörðum er mjer kunnugt um það, að stórir mótorbátar draga lóðir sínar löngu eftir að botnvörpungarnir hafa leitað til lands.

Um hvíldartíma á þessum mótorskipum hefir verið mikið talað þar vestra, og mörgum verið áhugamál að breyta honum, en þó hefir það reynst ómögulegt í framkvæmdinni.

Jeg skal fúslega játa það, að mig skortir þekkingu til þess að dæma um, hvort ákvæði 3. greinar, um verkaskiftinguna, sje heppileg. Jeg gæti ímyndað mjer, að hún sje lítt framkvæmanleg á smærri botnvörpungum, en á stærri togurunum skilst mjer að mætti koma henni við, enda hefi jeg heyrt, að sumir skipstjórar hafi einmitt tekið hana upp.

Jeg skal líka játa, að mjer hefði þótt rjettara, að samningar um þetta mál hefðu farið fram á milli skipstjóra og háseta, og trúi jeg ekki öðru en vel myndi fara þeirra á millum. Jeg átti nýlega tal um þetta við einn af skipstjórum togaranna, og ekki þann ófisknasta, og kvaðst hann mikið hafa hugsað um þetta mál, bæði fyr og síðar, en taldi sig ekki vera vissan um að geta fallist á frv., og þá sjerstaklega með tilliti til Vestfjarða. Hann taldi það, sem jeg hefi bent á, helstu annmarka frv.

Þá er það þessi „óslitni“ hvíldartími, sem 3. gr. ákveður. Jeg býst nú við, að það verði ekki svo þægilegt að hnitmiða það niður, enda að líkindum best, að það sje á valdi skipstjóra og háseta að koma sjer saman um það. Líklega heppilegast að skifta því svo, að hafa það 4 kl.stundir tvisvar, t. d. 4 kl.stundir þegar skip fer á milli fiskimiða, og svo aftur 4 kl.stundir þegar til veiða er tekið. En óslitinn hvíldartími í 6 kl.stundir skilst mjer, að geti komið í bága við veiðarnar.

Jeg hefi átt tal við marga háseta að vestan, og láta þeir vel yfir skipstjórum sínum og samvinnu við þá, en slík samvinna brást oft og tíðum áður, og þaðan mun þessi misbeiting á starfsþoli hásetanna hafa átt sínar rætur. Enda ber öllum saman um það, að þetta batni með hverju árinu, og sýnir ekki annað en það, að skipstjórarnir sjeu skynsamir í kröfum sínum til hásetanna, og þess vegna fullkomin ástæða að trúa því, að samningar, og báðum hagkvæmir, geti tekist milli þeirra.

Ýmsir háttv. þdm. hafa sagt, að leiðinlegt væri að þurfa að fyrirskipa þetta og því um líkt með lögum. Þetta má nú kannske segja, en jeg er nú þeirrar skoðunar, að margt hefði betur farið í atvinnumálum okkar, ef því hefði verið skipað með lögum.