18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Frsm. minni hl. (Pjetur Ottesen):

Jeg þarf ekki miklu að svara háttv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.). Orð hans voru, sem og von var, að mestu leyti endurtekning á orðum hinna meiri hluta mannanna. Það bólaði á því hjá honum, sem háttv. þm. Ak. (M. K.), að þá tók það dálítið sárt, að jeg skyldi hafa aðallega beint orðum mínum að háttv. framsögumanni, en ekki að háttv. meðnefndarmönnum hans. En því er nú venjulega svo háttað, að menn beina máli sínu mest að frsm. En hins vegar þykir mjer það miður, að þeir skyldu taka þetta sem aðdróttun um það, að þeir hefðu skrifað undir nál. umhugsunarlaust. því það lá ekki í máli mínu, enda eiga þeir um það við sjálfa sig, hve vel þeir athuga þau mál, sem þeim eru falin til yfirvegunar. En ekki er mjer grunlaust um, að þeir hefðu nú gjarnan viljað hafa athugað nefndarálit meiri hlutans nokkuð ger en þeir gerðu, þó að þeir beri sig karlmannlega og láti á engu bera.

Háttv. sami þm. (Þorl. G.) talaði um, að Englendingar hefðu oft siglt botnvörpungum sínum í strand hjer við land, og kendi svefnleysi skipsmanna um það. Má það dálítið undarlegt heita, út frá hans sjónarmiði, að minnast á þetta, þar sem þetta skipulag, sem þeir nú eru að berjast fyrir hjer, hefir þó einmitt verið reynt á Englandi, en hins vegar hefir íslenskur botnvörpungur aldrei strandað hjer af þessum sökum, og er þó hjer aðeins samkomulag um hvíldartímann. Er dálítið einkennilegt að ætla, að þetta muni frekar koma fyrir hjer eftir, þar sem öllum kemur þó saman um, að vökurnar sjeu miklu minni en þær áður voru. Þetta er því hvað á móti öðru hjá háttv. þm. (Þorl. G.), og er, að því er virðist, bara til þess að segja eitthvað.

Þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að ræðu háttv. þm. Ak. (M. K.).

Það er nú svo í lífinu, að menn taki sjer ýms viðfangsefni, eftir því sem skap þeirra er til; kaus þessi háttv. þm. sjer það viðfangsefni nú, að snúa út úr orðum mínum og færa til verra vegar. Notaði hann þetta í röksemda stað. Tókst honum það allslynglega, eins og vænta mátti af manni með jafnmikla æfingu í þeim efnum. Sjerstaklega flíkaði hann því mikið, að jeg hefði sagt, að áskoranirnar mundu ekki vera frá rjettum hlutaðeigendum. En þetta hefi jeg aldrei sagt, heldur hitt, að upptökin til þeirra mundu vera frá öðrum en sjómönnum sjálfum, og jeg sný alls ekki aftur með það.

Þá hneykslaði það hann mjög, að jeg sagði, að sjómennirnir gætu tekið rjett sinn sjálfir að þessu leyti, og þyrftu ekki til þess aðstoð löggjafarvaldsins. Sýnir það, að hann efast um þetta, aðeins, að hann hefir minna traust á sjómönnunum en jeg, og er þeim ekki eins kunnugur, þar sem hann treystir þeim eigi til þess að sjá sjer borgið í þessu efni.

Loks mintist hann á það, að oft mundi mega rekja orsök geðbilunar til of mikillar þreytu; get jeg vel trúað, að svo geti verið, og styrkir ræða og framkoma háttv. þm. þau líkindi.