07.05.1921
Efri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1946 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg hefi lítið hugsað um mál þetta, en leit það frekar hornauga. Af sjerstökum ástæðum er jeg samt nú frv. fylgjandi. Jeg gengst við því, að það er vegna þess, að jeg talaði í gærkveldi við sjómann, sem jeg þekki frá fyrri tíð; hann hefir sem sje verið hjá mjer í vist í tvö ár. Hann kom ekki til mín til að „agitera“ fyrir máli þessu, heldur kom hann í heimsókn með konu sína. Barst þá í tal frv. þetta, og sannfærðist jeg þá um, að frv. hefir við rök að styðjast, en við því hafði jeg raunar ekki búist. Þessi maður hefir nú í 8 ár verið háseti á togara. Nú síðastliðið ár var hann á þeim togaranum, sem mest aflaði. Ekki var hann óánœgður fyrir sitt leyti, því skipstj. hafði þá föstu reglu að láta hásetana hvíla sig 5–6 kl.tíma á sólarhring, og stundum meira; meira að segja sagði hann, að þessi skipstjóri hefði ýtt á þá niður til að hvíla sig, ef lítið var að gera, svo þeir yrðu ólúnari þegar þörf var á að starfa. Reynslan varð nú sú, að sá skipstjóri, sem þannig fór með háseta sína, aflaði mest allra þetta ár, og jafnvel meira en nokkur togari hafði nokkurntíma aflað áður hjer á landi. Sjómaður þessi benti mjer líka á, að hann vissi til, að 2 aðrir skipstjórar hefðu fylgt þessari sömu reglu, og hefðu þeir líka verið með þeim hæstu. Þetta sannfærði mig um, að hásetar hafa mikið til síns máls, úr því að þeir skipstjórar öfluðu mest, sem þeirri reglu hafa fylgt, að láta háseta sína hvíla sig vissan tíma í sólarhring. Sjómaðurinn sagði þetta stafa af því, að mennirnir ynnu tvöfalt meira þegar þeir fengju nógan svefn en er þeir væru hálfsofandi. Þessum manni hefir aldrei orðið misdægurt, en hann kvartaði undan, að svefnleysið áður fyr á togurunum hefði haft mjög slæm áhrif á sig, gert sig daufan og sljóan. Hann sagði mjer dæmi upp á það, hvernig svefnleysið færi með hásetana, það kæmi jafnvel fyrir, að þeir yrðu hálfbrjálaðir. — Einusinni hafði hann t. d. sjeð mann skera fisk þvert yfir, er hann átti að fletja, og kasta honum og hnífnum svo fyrir borð. Annað dæmi sagði hann mjer einnig. Stýrimaður hafði gengið niður í káetu til að ná einhverju. Það dróst að hann kæmi aftur, og er menn komu niður, fundu menn hann liggjandi á knjánum á gólfinu, steinsofandi. — Jeg skil vel, að slíkar vökur eru ekki heilnæmar. — Áður en jeg talaði við þennan sjómann, miðaði jeg við þá sjómensku, sem jeg þekti, og eftir þeirri reynslu, sem jeg hafði, þá er það rjett, að jeg áleit ekki geta komið til mála að ákveða sjómönnum hvíldartíma, eins og gert er í þessu frv. Jeg hefi t. d. verið á hákarlaveiðum. Þegar hákarlinn var kominn undir, var ekki um annað að tala en vera við, uns skipið var fult af lifur. Jeg hefi því altaf álitið, að ómögulegt sje að setja neinar fastar reglur um vinnutíma sjómanna, en þegar svo er ástatt, eins og hefir verið á togurunum, að mönnum er svo misboðið með vökum, að fyrir það hefir aflast minna en ella, þá virðist nauðsynlegt að setja slík lög sem þessi. Og sökum þess mun jeg greiða þessu frv. atkvæði mitt, og það með góðri samvisku.

Sjómaðurinn hafði fylgst vel með í máli þessu, og var hann að tala um brtt., sem kom fram í Nd. um það, að vökuskiftin skyldu ekki hefjast fyr en 1. mars. Sagði hann, að þingmenn mundu ekki hafa þekt aðstöðuna, úr því þeir feldu brtt. þessa. Vissan tíma ársins var fiskað í salt, hinn tímann í ís. Þann tíma, sem fiskað er í salt, er sífeld vinna í 2–3 mánuði. Þá er enginn hvíldartími, nema rjett á meðan verið er að skipa upp úr skipinu, og þann tíma þurfa menn, sem altaf eru að heiman, að nota til ýmsra útrjettinga, eins og skiljanlegt er. Þennan tíma er nauðsynlegt að menn fái að hvíla sig nokkra tíma á hverjum sólarhring. En þegar fiskað væri í ís, þá sagði hann sjálfsagt að halda áfram meðan hægt væri að standa á fótunum, því þá fengju menn aftur hvíld í 12–13 daga, meðan skipið væri á ferð inni til og frá Englandi og meðan þar væri dvalið.

Þá er að líta á brtt. háttv. sjávarútvegsnefndar. Við þær get jeg ekki allskostar felt mig. Um þær hefi jeg ekki talað við neinn eða neinn við mig. Einkanlega finst mjer athugaverð þessi setning „en ekki skal það talið brot á ákvæðum hennar, þótt háseti. eftir eigin ósk í einstök skifti vinni lengur í senn en þar er um mælt“. Þessi setning virðist í fljótu bragði ekkert athugaverð, en þegar jeg fer að athuga hana betur, finst mjer talsvert varhugavert, að þarna skuli standa „háseti“ í eintölu; hefði þar átt að standa hásetar. Því mjer virðist athugavert, að einn háseti skuli mega taka sig út úr og bjóða skipstjóra að vinna lengur. Slíkt gæti orðið til óánægju milli hásetanna. Því auðvitað yrði sá háseti svo slappur. er hann ætti aftur að vinna, þar sem hann hefir ekki hvílst neitt, að hann gæti ekki unnið sitt skylduverk fullkomlega móts við hina, sem ólúnir væru. Einnig er mjer ekki vel ljóst, hvernig borgun fyrir þessa aukavinnu ætti að vera farið. Ekki getur það komið fram í mánaðarkaupinu. Allir hljóta að hafa hið sama fasta mánaðarkaup. Heldur ekki er hægt að skifta lifrinni þannig, að þeir, sem ynnu í hvíldartímanum fengju meiri lifrarpeninga. Mjer skilst þá helst, að þessa aukavinnu yrði að launa sem tímavinnu. — Fleira mun jeg þá ekki segja um frv.; vil jeg aðeins taka það fram, enn einu sinni, að jeg mun greiða því atkvæði mitt.