11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1951 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Jakob Möller:

Jeg get ekki látið þessa umr. svo hjá líða, að jeg geri ekki grein fyrir atkvæði mínu. Jeg tel þetta mál ekki svo vel undir búið, að rjett sje að afgreiða það nú. Jeg tel það raunar vel farið, að málið hefir fengið að ganga gegn um allar umr. í báðum deildum. En í öllum þeim umr. hefi jeg ekki getað fengið þær upplýsingar því viðvíkjandi, sem jeg tel nauðsynlegar. Þetta mál hefir mjög verið notað sem kosningabeita við undanfarnar kosningar hjer í Reykjavík, en hefir hingað til aldrei verið upplýst nema frá annari hliðinni. Jeg vildi því, að málinu yrði vísað til stjórnarinnar til nánari athugunar, til þess í fyrsta lagi að athuga, hvort svo mikil nauðsyn sje á þessum lögum, sem af er látið, og í öðru lagi að rannsaka, hvaða áhrif þessi lög gætu haft á þennan atvinnuveg. Jeg hefi átt tal við háseta, skipstjóra, útgerðarmenn og ýmsa aðra, sem fullyrða, að lög þessi gætu orðið útveginum til alvarlegs hnekkis, vegna þess, að þessari vökuskiftingu, sem þau fyrirskipa, verði ekki komið við á smærri skipunum. Jeg skal viðurkenna, að jeg þekki ekki sjálfur inn í málið, en ef rannsókn leiðir í ljós, að þessir menn, er berjast fyrir lögskipun 6 kl. stunda hvíldar, hafi allmikið til síns máls, mundi jeg hiklaust greiða atkvæði með frv., en jeg get ekki gert mig ánægðan með þá rannsókn á málinu, sem til þessa hefir fram farið.