14.03.1921
Neðri deild: 22. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

34. mál, landsreikningar 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (M.G.):

Samkvæmt ósk háttv. 1. þm. Reykv. (Jak.M.) mun jeg reyna að hafa á reiðum höndum hinar umbeðnu tölur við 3. umr. Annars skiftir það ekki miklu máli, eins og jeg hefi tekið fram, hvar þessar upphæðir eru færðar, hvort heldur hjá landsverslun eða ríkissjóði. En það er auðvitað mál, að ef landsverslun væri engin til, þá yrði slíkur kostnaður við erindreka erlendis og þess háttar greiddur úr ríkissjóði.

Viðvíkjandi háttv. frsm. (Sv.Ó.) vil jeg geta þess, að það eru ekki nema fáar tölur, ekki nema 2–3 póstar, á landsreikningnum, sem þarf að athuga og rannsaka, til þess að ljóslega sjáist, hvort tekjuafgangur eða tekjuhalli er. Jeg fæ því ekki sjeð, að formið á landsreikningnum sje ófullkomið, eða að ástæða hefði verið fyrir nefndina að gera tillögur um 9 formsbreytingu. Og ef slíkar till. koma ekki hjer fram, tel jeg það vott um það, að háttv. þingmenn sjeu samþykkir því formi, sem nú er á landsreikningnum.