16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

34. mál, landsreikningar 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (M.G.):

Jeg ætlaði að eins að svara fyrirspurn háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) um sundurliðunina á aths. á þskj. 140. Seðlakerfið kostaði kr. 42062,70 fyrir bæði árin, 1918 og 1919. Hálfur erindrekakostnaðurinn fyrir bæði árin var kr. 90927,32. Þar við bætist vaxtamismunur landsverslunarinnar, sem er kr. 5773,58. Þennan vaxtamismun hafði landsverslunin fært til gjalda hjá sjer.

Þegar þessar 3 upphæðir eru lagðar saman, kemur út sá mismunur, sem nefndur er í athugasemdunum.

Jeg skal út af aðfinslum háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) geta þess, að jeg hefi athugað málið svolítið, og sjeð að það er ekkert á móti því, að hafa það fyrirkomulag, sem hann talaði um. Og svo framarlega sem jeg á eftir að búa út landsreikning aftur, þá mun jeg láta fylgja skilagrein, sem sýnir, hvort ríkissjóður hefir haft ábata eða halla á síðasta ári. Þetta er mjög lítil fyrirhöfn, og er því sjálfsagt að gera það.