04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

112. mál, fiskimat

Pjetur Ottesen:

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) þykist slá tvær flugur í einu höggi með brtt. sinni á þskj. 482, sem sje að færa það til betra máls og skýra efni frv.gr. Það er nú svo. Verði brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) samþ., ber ekki að meta fisk upp úr salti, nema því aðeins, að hann sje sendur óverkaður til útlanda.

Eftir frv., eins og það er, ber að meta allan fisk upp úr salti, sem gengur kaupum og sölum innanlands og ætlaður er til útflutnings. Að sjálfsögðu nær þetta ákvæði ekki til þess fiskjar, sem gengur kaupum og sölum og nota á til neyslu í landinu sjálfu; það er einungis hártogun. Það dylst engum, hver munur er á þessu tvennu. Verði þessi brtt. samþykt, er girt fyrir það, að þeim tilgangi verði náð, sem stefnt er að í frv., sem sje það, að lögbjóða mat á þeim fiski, sem gengur kaupum og sölum innanlands upp úr salti og flytjast á síðar meir á erlendan markað, en slíkt mat er einmitt mjög mikil trygging fyrir því, að fiskurinn sje vel verkaður í saltið og varúðar gætt í meðferð hans, en eftir því fer um gæði fiskjarins. (Sv. Ó.: Er þá ætlast til að fiskurinn verði tvímetinn?) Já.