04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

112. mál, fiskimat

Magnús Kristjánsson:

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð. Jeg vænti þess, að háttv. frsm. (E. Þ.) lái mjer ekki, þó jeg hafi svo liðlegar skoðanir, að jeg geti aðhylst það, sem síðar kemur fram og mjer virðist til bóta, þó að jeg áður hafi fylgt einhverju öðru.

Nú álít jeg brtt. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. O.) betri en frv.gr., og verður mjer þá ekki legið á hálsi fyrir það, þó jeg greiði henni atkvæði mitt.

Háttv. frsm. (E. Þ.) segir, að jeg muni ókunnugur málinu. Jeg mótmæli því. Hann er að líkindum kunnugri hjer við Faxaflóa, en annarsstaðar á landinu mun jeg vera eins kunnugur og hann.

Jeg held því enn fram, að ekki sje hægt að framfylgja þessu svo, að ekki verði farið í kringum lögin.