04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1975 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

130. mál, veiting ríkisborgararéttar

Flm. (Stefán Stefánsson):

Fyrir fáum dögum barst mjer beiðni frá Ole A. O. Tynes á Siglufirði, um að mæla með því, að honum yrði veittur ríkisborgararjettur. Með beiðninni var brjef til stjórnarinnar um að flytja frv. um þetta, og meðmæli bæjarfógetans á Siglufirði. Nú með því, að svo langt var liðið á þingtímann, þá mæltist hæstv. stjórn til, að jeg flytti frv.

Þessi maður fluttist alfarinn frá Noregi 1907 og settist að á Siglufirði sem útvegsmaður. Þar hefir hann búið síðan og rekið útveg og bygt hús og bryggjur. Árið 1911 giftist hann íslenskri konu. Eiga þau eitt barn, og er töluð íslenska á heimilinu. Í meðmælunum ber bæjarfógeti honum besta orð og telur hann gagnlegan mann sveitarfjelaginu. Má í því sambandi geta þess, að hann hefir verið í hafnarnefnd kaupstaðarins í nokkur ár.

Jeg tel ekki þurfa fleiri orð hjer um að hafa, því dugnaðar- og framtaksmenn höfum við aldrei of marga, og verði þessum manni veittur hjer ríkisborgararjettur, sem jeg tel sjálfsagt að gera, þá höfum við hjer einum fleira af slíkum mönnum. Annars eru aðaldrættirnir um veru hans hjer í greinargerð með frv.

Málið tel jeg svo einfalt, að ekki ætti að þurfa að vísa því til nefndar, en þó er það líklega rjettara, og mun það þá eiga heima í allsherjarnefnd.