14.05.1921
Efri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1978 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

130. mál, veiting ríkisborgararéttar

Jóhannes Jóhannesson:

Allshn. hefir athugað mál þetta, þó að því hafi ekki beinlínis verið vísað til hennar. Við það var ekkert að athuga, annað en það, að það lá ekki ljóst fyrir, hvort maður þessi hefði mist ríkisborgararjett í Noregi eða ekki. Eftir norskum lögum frá 21. apríl 1888, 6. gr., missir hver norskur ríkisborgari, sem flytur af landi burt, ríkisborgararjett sinn eftir eitt ár, nema hann innan þess tíma sendi ræðismanni ósk um að halda honum áfram.

Í tilefni af þessu sendi allsherjarnefnd Ole Tynes skeyti og spurðist fyrir um, hvort hann hefði gert þetta, og fjekk aftur svo hljóðandi símskeyti:

„Jeg hefi aldrei látið þá ósk uppi við neinn norskan konsúl“.

O. Tynes fluttist hingað út 1907 og hefir í alla staði reynst mjög nýtur maður, og fyrir því sjer nefndin ekkert því til fyrirstöðu að veita honum ríkisborgararjett.

Jeg skal svo taka það fram, að jeg tel óþarft að vera að semja sjerstök lög um ríkisborgararjett fyrir hvern einstakan mann, sem veita á þann rjett. Hið rjetta er, að stjórnin gefi út auglýsingu um það, hver skilríki eigi að fylgja beiðni um veiting ríkisborgararjettar, og um það, innan hvers tíma ár hvert slíkar beiðnir eigi að vera komnar stjórninni í hendur. Á hún svo að semja og leggja fyrir hvert þing frv. um ríkisborgararjett til handa þeim af umsækjendunum, sem hún telur, að veita eigi þann rjett.