16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1983 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

91. mál, fátækralög

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. flm. (M. P.) nefndi mig í sambandi við þetta mál, og þarf jeg ekki að svara því nema að litlu leyti. Jeg mun hafa tekið dauflega í endurskoðun fátækralaganna, jeg man ekki hvernig orð mín fjellu, en eitthvað mun það hafa verið á þá leið, að það gæti ef til vill verið ástæða til að endurskoða lögin nú og breyta þeim samkvæmt kröfum tímans, en það mundi kosta nýja milliþinganefnd og nýtt frv., sem þingið síðan svæfði.

Háttv. flm. (M. P.) talaði um nýja stefnu, en það er misskilningur. Hjer er í mesta lagi um að ræða nýmæli í íslenskum lögum, ef samþykt verður, en stefnan er gömul. Hún kom fram þegar lögin voru samin, 1905, og henni hefir verið haldið á lofti síðan. Við, sem sömdum þessi lög, vorum ekki fjarri því að taka upp lík ákvæði og háttv. flutningsmaður fer fram á, en við treystumst ekki til þess þá. En hitt er annað mál, hvort nú sje ekki hægt að gera þetta, því tímarnir eru breyttir. Um nýja stefnu er alls ekki að ræða.

Þá vil jeg minnast á tvö atriði, sem hv. flm. (M. P.) taldi ófær, og var annað það, að takmarka sjúklingatöluna. Eins og háttv. þm. (M. P.) tók fram, lítur þetta ekki vel út, fljótt á litið, en í raun og veru er þetta ekki eins slæmt og háttv. þm. (M. P.) gaf í skyn. Þetta ákvæði var sett til þess að hjálpa fátækari og fámennari sveitarfjelögum, en þau munu sjaldan hafa mjög marga sjúklinga. Aftur var litið svo á, að stærri sveitarfjelög stæðu sig betur við að greiða fyrir þá, þótt sjúklingar væru fleiri. Ef sjúklingatalan hefði verið ótakmörkuð, hefði styrkur þessi að mestu gengið til kaupstaðanna. Og þess ber að gæta, að sjúklingar þeir, sem hjer er um að ræða. eru tiltölulega fleiri í kaupstöðunum og annarsstaðar, þar sem sjúkrahús eru. Þannig yrði það einkum stærri kaupstöðum að gagni. allra helst Reykjavík, ef sjúklingatalan yrði ótakmörkuð, sem styrkt væri. Hitt má vera, að sjúklingatöluna megi hækka eitthvað. En vilji hið háa Alþingi taka alveg af takmörkunina, þá er það reiðilaust af mjer.