16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

91. mál, fátækralög

Flm. (Magnús Pjetursson):

Hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) sagði, að mjer hefði verið heppilegra að ráðgast við nefndina í háttv. Ed. eða bíða eftir frv. hennar. Jeg sá enga ástæðu til að bíða lengur, og jeg sje ekkert á móti því að bera þetta frv. fram í þessari háttv. deild. Jeg geri ráð fyrir, að því verði vísað til allsherjarnefndar, og tel jeg þá sjálfsagt, að hún leiti samvinnu við nefndina í hv. Ed. Því hefir verið skotið að mjer nú, að von sje á enn einn frv. um breytingar á sömu lögum, og hafði jeg ekkert um það vitað og ekki gert ráð fyrir því, vegna þess, að nú er liðinn sá frestur, er bera má fram frv.

Hæstv. forsrh. (J. M.) hefir misskilið orð mín um nýja stefnu. Jeg tók það einmitt fram, að hún hefði komið fram áður, og jeg gerði enga tilraun til að tileinka mjer hana. Við þáltill. 1917 var þetta einmitt aðalatriðið, og í berklaveikisnefndinni hefir hún komið fram, en ný stefna er það engu að síður, og á eftir að komast í framkvæmd.

Mjer var vel kunnugt um mótbáruna gegn ótakmörkuðum sjúklingafjölda, og þurfti þess vegna ekki að sækja þá visku í hæstv. forsrh. (J. M.). Jeg hefi sjeð það af nál. 1905, að því hefir verið hampað, að stóru sveitarfjelögin græddu altof mikið á þessu, og þá sjerstaklega Reykjavík. En sjúkdómar fara ekki eingöngu eftir fámenni og fátækt sveitarhjeraðanna, og jeg veit um eitt sveitarfjelag, sem kostar 5 sjúklinga, og er það með fátækustu sveitarfjelögum landsins. Jeg verð að álíta það rangt að láta aðra gjalda þess, að menn vilja ekki láta Reykjavík hafa of mikinn hagnað, og kemur það niður á þeim, sem verst eru staddir.

Jeg býst við því, að frv. fari til nefndar og er hún skipuð mönnum, sem vanir eru að fara með sveitamálefni, og tel jeg því vel borgið í höndum hennar.