02.05.1921
Neðri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

91. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Jeg hafði fyrst hugsað mjer að koma með þingsályktunartillögu um að skora á stjórnina að rannsaka fátækralöggjöfina og gera tillögur um breytingar á gildandi lögum, og leggja fyrir næsta þing, vegna þess, að jeg áleit ekki tíma til að gera þær breytingar á þessu þingi, er jeg tel að þyrfti að gera á þessum mikla lagabálki. En þegar jeg fór að gá betur að, sá jeg, að á þinginu 1917 var samþykt þingsályktunartillaga um að skora á stjórnina að leggja fyrir næsta þing frv. til laga um breyting á fátækralögunum, og tilteknar þær breytingar, er helst ætti að gera.

Hæstv. forsrh. (J M.) er einn þeirra manna, sem áttu sæti í milliþinganefnd þeirri, sem undirbjó fátækralögin frá 10. nóv. 1905, og hann tók ekki liðlega í það mál þá, þótt hann játaði, að hann liti öðrum augum á þetta mál heldur en þegar lögin voru samin.

Þegar jeg sá, að málið var þannig vaxið, og nokkur ár liðin, án þess nokkuð hafi sjest frá stjórninni í þessa átt, þá var ekki að búast við miklum árangri, þar sem sami maður átti enn að fjalla um málið.

Þess vegna fanst mjer ekki rjett að koma með tillögu til þingsályktunar, en hugsaði mjer að flytja fyrst frv. til breytinga á þessum lögum, en háttv. þm. Str. (M. P.) hefir nú gert það, og koma þessar till. mínar því sem breytingar við það frv. Það er erfitt að flytja breytingar á þessum lögum, þar sem þjóðin er búin að búa við þau breytingalítið síðan 1905. Framkvæmd laganna er komin í nokkuð fast horf og menn eru orðnir þeim svo vanir, en margt mundi raskast, ef miklar breytingar væru gerðar.

Þær breytingar, er jeg helst vildi gera, eru á þskj. 406.

Í fyrsta lagi fara þær í þá átt að koma í veg fyrir, að menn verði sviftir atkvæðisrjetti, þó að þeir verði að þiggja styrk eftir fátækralögunum. Í öðru lagi að láta menn ekki finna eins til þess, að þeir eru upp á aðra komnir, eins og eftir núgildandi lögum.

Það er meira en að menn missi rjettinn til atkvæðagreiðslu um opinber mál, ef þeir eru svo óheppnir að vera komnir upp á náðir þess opinbera; þeir verða að minni mönnum í augum sjálfra sín og annara, og hugsa minna um að bjarga sjálfum sjer eftir á, þótt þeir vegna óhepni eða slysa hafi neyðst til að þiggja styrk af sveit sinni.

1. brtt. miðar að því, að sá styrkur skuli ekki talinn fátækrastyrkur, sem veittur er fyrst og fremst fyrir ómegðarsakir, og er þar miðað við meðalfjölskyldu, þannig, að sá, sem hefir að minsta kosti þrjú heimilisföst framfærsluskyld börn, skuli geta fengið styrk vegna ómegðar, ef hann þarf þess með, án þess það sje talinn sveitarstyrkur, en ef kona á í hlut, sje það talin ómegð, ef hún hefir meira en eitt barn fram að færa, og verði slíkur styrkur vegna ómegðar eigi látinn varða rjettindamissi.

Svo er, að styrkur til þeirra, sem eiga við vanheilsu að búa, skuli ekki teljast fátækrastyrkur, eða þeir sviftir rjettindum, og skal styrkþurfi sanna með vottorði læknis, eða ef ekki næst í lækni, með vottorði tveggja skilríkra manna, að slys eða vanheilsa, sem styrkþurfi á ekki sök á, geri hinn ófæran til vinnu um lengri eða skemri tíma.

Það er annars hart, að sá maður, sem verður fyrir því óláni að fótbrotna, og verða frá vinnu langan tíma vegna þess, eða liggja þunga legu mánuðum saman, þótt hann hafi verið dugnaðarmaður til vinnu meðan hann gat notið sín, að þegar hann vegna þessa þarf að leita á náðir hins opinbera um framfærslu, þá sje hann sviftur rjettindum, er honum ber sem borgara í þjóðfjelaginu. Þetta hefir þau áhrif á hann, að hann hefir minni hvöt til að bjarga sjer, eftir að hann er kominn til heilsu aftur; hann er þá kominn „á sveitina“ hvort sem er.

Þetta er ekki einungis skaði fyrir einstaklingana, heldur fyrir þjóðfjelagið alt. Þessi óhöpp, sem mönnum eru ósjálfráð, virðast ekki lama starfslöngun manna, sem ekki verða styrksþurfandi. Þeir hafa fullan hug á að bjarga sjer, eins eftir að þau eru afstaðin og áður. En ef þeir fá styrk af sveitinni, þá vaknar sú tilfinning í huga sjálfra þeirra, að þeir sjeu orðnir að minni mönnum, og margir, því miður, líta einnig þannig á þá líka. En þetta hlýtur að draga úr löngun manna til að bjarga sjer og sínum og koma þeim til að sætta sig við eymdarkjörin. Geta allir sjeð, hversu holt það er.

Þá vildi jeg, að sá styrkur skuli ekki talinn sveitarstyrkur, sem veittur er vegna atvinnuskorts.

Það væri heilladrýgst fyrir sveitarfjelögin, að þau, heldur en að veita sveitarstyrk, þegar svo stendur á, hefðu altaf atvinnu að veita mönnum. Það mundi verða stórt spor til að bæta kjör manna, og velmegun mundi fara vaxandi í landinu.

Það er sárt til þess að vita, að í mörgum sveitarfjelögum — eða svo er það að minsta kosti hjer í Reykjavík — skuli fjöldi manna ganga atvinnulaus marga mánuði af árinu. Þetta eru flest fullvinnandi menn en geta enga vinnu fengið. Hjer stendur það opinbera ráðalaust, getur ekki sjeð þeim fyrir vinnu, en ef beðið er um sveitarstyrk, þá verður að veita hann. En ef sveitarfjelagið eða bæjarfjelagið hefði getað greitt fyrir þessum mönnum og komið þeim á framfæri með atvinnu, þá mundi það ekki þurfa að veita þessa fátækrastyrki, sem geta orðið svo þungir, að sveitarfjelögin rísi ekki undir þeim.

Þá kem jeg að d-liðnum. Það hefir vakað fyrir mörgum, að láta það ekki valda rjettindamissi, þó menn fyrir elli sakir verði að fá styrk.

Það er ósvinna, að maður, sem hefir unnið sveitarfjelaginu og þjóðinni gagn í 40 eða 50 ár æfi sinnar, að þegar hann verður ófær til vinnu, bilaður eða fyrir elli sakir, þá er honum svo að segja kastað burtu á guð og gaddinn, eða hann verður að þiggja náðarbrauð þess opinbera og borga það með mannrjettindum sínum. Jeg hygg, að menn muni sjá, og verði ekki í vafa um, að þessir menn eigi heimtingu á uppeldi sínu hjá því opinbera, án þess að þurfa að gjalda það þessu verði.

Hitt er annað mál, að menn munu hræddir um, að ekki sje hægt fjárhagsins vegna að koma þessu í lag. Það verður máske ekki hægt í fljótu bragði að koma því á með ellistyrk, en þangað til er ekki rjett að telja slíkan styrk sveitarstyrk eða náðarbrauð, og láta varða rjettindamissi.

Þá er eitt atriði í fátækralögunum frá 1905, og það er fátækraflutningurinn. Frá sjónarmiði margra er hann nauðsynlegur, til þess að sveitarfjelög þurfi ekki að veita öðrum styrk en þar eiga framfærslu. Jeg hefði talið það rjettast, að menn ættu heimting á styrk í því sveitarfjelagi, sem þeir eru búsettir í, er menn hafa dvalið þar í 2 ár. Það er áreiðanlegt, að það er ekkert eins hneykslanlegt í fátækrastjórninni eins og þessi fátækraflutningur. Heilar fjölskyldur eru rifnar upp nauðugar og sendar eins og annað góss hringinn í kringum landið. Þetta vildi jeg laga þannig, að ekki væri hægt að flytja þá burtu á móti vilja þeirra, ekki nema þeir væru sjálfir fúsir til að fara á framfærslusveit sína, og með því fyrirbyggja, að þeir væru rifnir upp nauðugir. Sá maður, sem hefir orðið fyrir því óláni að þurfa að þiggja af sveit, er algerlega rjettlaus; hann hefir ekki eitt einasta orð að segja um meðferðina á sjálfum sjer og sínum. Jeg vildi láta veita þeim þennan rjett, meðan sveitfestitíminn er eins og hann er nú. Um framfærsluskyldu sveitarfjelaga færi þá, ef styrkþurfi yrði ekki fluttur vegna þess, að samþykki hans til flutnings hefir ekki fengist, eins og nú er í gildi í fátækralögunum um þá, er ekki verða fluttir einhverra orsaka vegna. Og ef tillögur mínar verða samþyktar, mundu styrkþurfar ekki verða eins gersamlega rjettlausir um það, hvernig með þá er farið, eins og eftir gildandi lagaákvæðum fátækralaganna.

Þá er í 2. brtt. minni, a. og b. lið, ákvæði um, að skuldir vegna styrks, sem veittur er eftir lögum þessum, skuli fyrnast á 5 árum.

Jeg held það hafi ekki mikla þýðingu fyrir sveitarfjelögin að vera að draslast með þessar skuldir í bókum sínum árum saman; að minsta kosti hefir mjer virst svo hjer í Reykjavík, að lítið hafi fengist endurgreitt, hvort sem það stafar nú af því, að ekki hefir verið eftir því gengið, — það gæti valdið miklu um — eða menn ekki eru þess megnugir; en jeg held það yrði ekki mikill skaði fyrir sveitarfjelögin, þótt þær fjellu niður.

En ef skuldirnar fyrnast á 5 árum, eins og brtt. gerir ráð fyrir, þá þarf ekki að vera að dragast með þetta í bókum, því undantekning mun það vera, að nokkuð náist af þeim.

Ef brtt. mínar undir 1. lið yrðu samþ., gæti það verið vafamál, hvort þeir, sem á undanförnum árum hafa þegið sveitarstyrk eftir fátækralögunum, yrðu ekki ver settir en þeir, sem styrk fengju eftir brtt. mínum, þannig, að gamlar sveitarskuldir sviftu þá rjettindum. En til að taka af allan vafa um þetta og fyrirbyggja misrjetti, hefi jeg sett það ákvæði í 2. lið brtt., að allar fátækraskuldir frá fyrri árum skuli falla í fyrningu, ef þær hafa ekki verið innheimtar fyrir 1. jan. 1922.

Það getur vel verið, að deila megi um það, hvort hægt sje að ákveða með lögum, að sá styrkur, sem veittur er eftir brtt., skuli ekki varða rjettindamissi eða vera talinn sveitarstyrkur, því þótt það væri sett í lög, að það skyldi ekki skoðast þannig, þá mundu sumir ef til vill segja, að það væri það eftir sem áður. En í fátækralögunum eru ýms ákvæði, sem styrkja þá skoðun, að hægt sje að ákveða með lögum, að veittur styrkur þurfi ekki að skoðast sem fátækrastyrkur, og má í því sambandi meðal annars benda á 74. gr. fátækralaganna, þar sem tekið er fram berum orðum, að flutningskostnaður við fátækraflutning skuli ekki teljast sveitarstyrkur, veittur þurfaling.

Jeg hygg því, ef þessar brtt. verða samþ., að það muni koma að fullu haldi þeim mönnum, sem undir þau ákvæði kynnu að koma, svo að þeir fái að halda atkvæðisrjetti sínum til Alþingis og bæjarstjórna. Það er eitt sárasta bölið hjá fólki að vita sig verða útundan um þátttöku í þjóðfjelagsmálunum, þótt þeir hafi þurft, vegna óhappa, slysa eða ómegðar, að þiggja hjálp þess opinbera. Jeg hygg, að menn muni ekki deila á um þetta, en það er allur vandinn að koma því vel fyrir. Ef við værum komnir lengra í tryggingarmálunum heldur en á byrjunarstigið, þá væri þetta auðveldara. En hjer eru engir sjóðir til að taka við mönnum, sem verða fyrir slysum, nema slysatryggingarsjóður sjómanna, svo skamt sem hann þó nær, og smásjóðir í einstökum fjelögum, sem geta þó veitt smástyrki í sárafáum tilfellum, og alls ekki til frambúðar. Þó ekki vanti, að borgararnir hjálpi af góðum hug og hlaupi undir bagga, þegar óhöpp eða slys vilja til, þá er það ekki til frambúðar, því þegar maður slasast og honum er veitt rífleg hjálp, með samskotum eða styrk frá einstökum mönnum, þá nægir hún máske í lengsta lagi í 4–5 mánuði, en þegar til lengdar lætur, verður hann að leita á náðir þess opinbera. Það vantar ekki góðgerðarsemi, en þó menn kenni í brjósti um bágstadda í svip, þá fyrnist slíkt þegar frá líður. Menn vilja ekki og geta ekki styrkt þá endalaust, svo endirinn er venjulega sá, að leita verður á náðir þess opinbera.

Þessi orð vildi jeg láta fylgja brtt. mínum. Mjer þótti vænt um, að háttv. frsm. allsherjarnefndar (E. Þ.) ljet í ljós, að hann gæti fylgt nokkrum breytingum mínum, og vona jeg, að fleiri háttv. þm. hallist á sömu sveif. Jeg get vitanlega sætt mig við það, að nokkrar breytingar verði á till. gerðar, en þær verða þá að stefna í sömu átt og till., að gera fátækralöggjöfina meira í samræmi við skoðanir manna nú.

Jafnframt þessum breytingum þyrfti að reyna að koma tryggingarmálum vorum í sæmilegt horf, og ef það væri gert, mætti að mestu losna við fátækralögin, og ef til vill upphefja þau með öllu. Það mætti tryggja menn fyrir flestöllum þeim áföllum, sem koma mönnum á sveitina nú, og þau ákvæði, sem umfram eru í fátækralögunum og þurfa að standa, mættu þá koma í önnur lög. Þessu er ekki hægt að koma í kring nú, en eitthvað má reyna að komast í áttina.