02.05.1921
Neðri deild: 60. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

91. mál, fátækralög

Hákon Kristófersson:

Mjer þykir leiðinlegt, að hæstv. atvrh. (P. J.) er ekki við, því að eins og hæstv. forsrh. (J. M.) tók fram. heyrir þetta mál undir hann.

Það að óþarfi sje að taka svari hæstv. forsrh. (J. M.), því að hann mun geta svarað fyrir sig, verð jeg að segja, að mjer kom á óvart árás háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) á hann. Það er kunnugt, að hæstv. ráðherra hefir altaf borið hlýjan hug til þessa máls.

En jeg get ekki verið samdóma hæstv. forsrh. (J. M.) um það, að brtt. háttv. þm. Str. (M. P.) sjeu neitt meginatriði í þessu máli, eða nauðsynlegt sje, að hún gangi fram.

Þetta er vandræðamál, og get jeg verið sammála háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) um það; en að öðru leyti er jeg honum að mestu ósamdóma. Hann sagði, að styrkþegi væri rjettlaus gagnvart hreppsnefndum, en þessu verð jeg að mótmæla sem ómaklegri og illgjarnri ásökun í garð hreppsnefnda. Mannúðin er komin á það hátt stig, að menn reyna að beita lögunum vægilega, og umráðarjettur þurfalinga er ekki svo takmarkaður sem margir vilja halda. Þetta get jeg sagt af eigin reynslu. En till. háttv. þm. (J. B.) ganga lengra en góðu hófi gegnir. Enda vill sá hv. þm. láta þá eina hafa atkvæðisfrelsi, sem mestir eru ónytjungar, ef fara má eftir ýmsum ummælum háttv. þm.

Jeg vil t. d. nefnda það dæmi, að menn þurfi sveitarstyrk vegna atvinnuleysis. Hv. þm. (J. B.) vill, að sá styrkur teljist ekki fátækrastyrkur. En ef manninum er boðin vinna og sæmilegt kaup, þó ekki sje það eins hátt og hann kýs helst, og hann neitar boðinu. Hvernig á þá að fara að? Eða ef aðrir banna honum að vinna, eins og nú er farið að tíðkast hjer syðra?

Þá get jeg ekki fallist á, að sveitaflutningur sje eins ómannúðlegur og háttv. þm. (J. B.) vildi telja. Jeg sje ekkert vit í því, að hreppur úti á landi greiði sveitarstyrk til manns hjer í Reykjavík t. d., þar sem alt er miklu dýrara og maðurinn verður að ganga alveg atvinnulaus, en heima í sveit sinni kemst hann af með miklu minna; það fer betur um hann og þar getur hann unnið.

Þá kann jeg ekki við að láta skuldirnar fyrnast á jafnstuttum tíma og háttv. þm. (J. B.) gerir ráð fyrir. Jeg skal játa það, að það er leiðinlegt að vera að burðast með þessar upphæðir í hreppsbókunum ár frá ári, en svo getur farið, að einhver af styrkþegum verði vel fær um að borga skuld sína, t. d. hafi tæmst arfur eða því um líkt, og er þá verra að hafa strikað skuldina út.

Jeg skal játa það, að sveitfestistíminn er of langur, og veldur hann oft reipdrætti og togstreitu milli hreppanna. En jeg held, að það sjeu öfgar hjá háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.), að ef maður hafi verið 9 ár í sömu sveit, sje honum varla vært 10. árið, því að hreppsnefndin ofsæki hann til að koma honum í burtu. En alt slíkt fellur burt, hafi einhver brögð að því verið, ef fresturinn er styttur í 1 ár, og sje jeg ekkert athugavert við það. Það er vel, að þessu atriði sje kipt í lag, því að það hefir oft orsakað leiðar deilur milli hreppa.

Jeg get að mestu fallist á till. nefndarinnar, en þó verð jeg að telja vafasamt, að mikill sparnaður af þeim leiði. Það er vitanlega of lágt að greiða 200 kr. fyrir barnið, en ef tekið er tillit til fjárhagsástands hreppanna, verður að fara varlega í að hækka það.

Jeg mun vera með því að færa sjúklingatöluna upp, enda þótt það hafi í för með sjer aukin útgjöld fyrir landssjóð, en jeg held, að það sje sanngjarnt. Í fáum orðum sagt: jeg get fallist á till. nefndarinnar, en till. háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) get jeg ekki aðhylst, og vona jeg, að hann álíti það ekki af illum hug til málsins gert eða af mannúðarleysi.