15.04.1921
Efri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

105. mál, einkasala á áfengi

2208Frsm. (Halldór Steinsson):

Í byrjun þingsins, í þessari háttv. deild, var flutt frv. til laga um einkasölu á lyfjum, sem var að mestu leyti samið af landlækni. Mjer er óhætt að fullyrða, að það hefir ekki vakað fyrir landlækni eða stjórninni að afla ríkinu tekna með þessu frv., heldur að tryggja það, að í landinu væru birgðir af góðum lyfjum, sem seldust með sanngjörnu verði. Til þess að slík trygging fáist, þarf gott eftirlit með lyfjabúðunum. Þær eru nú 9 að tölu, en fer óðum fjölgandi. Það er augljóst, að landlæknirinn, sem hefir haft eftirlit með lyfjabúðunum, en hefir nóg annað að starfa, kemst ekki yfir þetta. Í þessu frv. þarf sá, er hefir eftirlit með lyfjabúðunum, ekki einungis að hafa læknispróf, heldur og lyfsalapróf. Annað ákvæði er það, sem tekið er úr lyfjafrv., að forstjóra áfengisverslunarinnar er gert að skyldu að útvega læknum, sem hafa rjett til lyfjasölu, lyf, umbúðir og hjúkrunargögn, samkvæmt beiðni þeirra. Það hefir verið litið svo á, að hjeraðslæknum væri skylt að kaupa lyf af innlendum lyfjabúðum, en það liggur í augum uppi, að lyfin hljóta að verða dýrari fyrir þennan óþarfa millilið.

Eins og kunnugt er, er læknum og lyfjabúðum falin útsala á lyfjaáfengi, og líka iðnaðar- og suðuáfengi, en það er brot á bannlögunum. Því það er tekið fram í bannlögunum, að læknar skuli einungis hafa áfengi til lyfja. Alt það áfengi, sem úti er látið, er skrifað á reikning lækna, þó mikill hluti þess sje iðnaðaráfengi. Að öðru leyti hefir nefndin ekki sjeð sjer fært að gera breytingar á lögunum frá því, sem þau komu frá Nd.

Jeg rak mig áðan á brtt. háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.). Það er ekki ástæða til að ætla, að nefndin hafi haft tíma til að athuga hana.

Með brtt. við 7. gr., þar sem hv. þm. (S. H. K.) fer fram á, að hækkuð sje álagningin frá 25–75% upp í 50–75%, tel jeg stigið of stórt spor, en mun skýra síðar frá afstöðu nefndarinnar til breytingartillaganna yfir höfuð.