15.04.1921
Efri deild: 44. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2016 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

105. mál, einkasala á áfengi

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg kannast við, að hafa gefið frv. þessu meðmæli. Jeg held við eigum að samþykkja það með hæfilegum breytingum, og þær munu ekki svo miklar, að eigi verði unt að ná samkomulagi um þær. Það er rjett, að það var af því að jeg var við samþykt bannlaganna riðinn og átti þátt í þeim, að jeg mintist á laun umsjónarmanns áfengiskaupanna, í samræmi við þetta frv. og í samanburði við laun þau, er væntanlegum áfengisstjóra eru ætluð samkvæmt frv. þessu.

Hæstv forsrh. (J. M.) tók fram, hvernig Finnar höguðu sjer í þessu máli, er þeir fengu dr. Matti Helenius í hendur aðalframkvæmd bannlaganna. Þetta hefir hins vegar tekist miður vel hjá okkur. Og jeg vona því, að stjórnin skipi fyrst og fremst mann til að gegna þessu embætti, sem hefir fullan vilja á og fær er um að uppfylla rjettlátar kröfur löghlýðinna borgara í þessu efni. Jeg legg ekki svo mikið upp úr eftirlitinu með lyfjaversluninni, því sem áfengi er ekki í. Því þótt nokkur misbrestur væri á gæðum lyfja, meðan á ófriðnum stóð og ekki var annars kostur en taka það, sem að manni var rjett, vegna vörueklu og ónógra samgangna, þá er þetta nú að komast í sitt gamla horf aftur og við fáum nú eins góð lyf og við fengum áður. Jeg legg því ekki áherslu á lyfjaeftirlitið; jeg legg aðaláherslu á, að með skipun áfengisstjórans verði bragarbót ráðin á áfengissölunni, sem verður að komast í annað og betra horf en verið hefir undanfarið.