19.04.1921
Efri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2026 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

105. mál, einkasala á áfengi

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg vil ekki fara út í neinar deilur um síðari brtt. mína, því hún er tekin aftur til 3. umr. Jeg stóð upp í tilefni af ræðu háttv. 2. landsk. þm. (S. E.). Vafalaust er, að okkar skoðanir á þessu máli fara einna mest saman að sumu leyti. Jeg get tekið það fram, að jeg legg lítið upp úr eftirlitsstarfinu með lyfjabúðunum. Þótt lyf, sem ekki hafa verið af bestu tegund, hafi flust inn undanfarin ár, þá álít jeg ekki hægt að kenna eftirlitsmanninum eða lyfsölunum um það. Það hefir orsakast af ástandi því, sem styrjöldin hefir skapað. Jeg kannast því við, að jeg er ekki með frumvarpinu sökum þess, að jeg leggi svo mikið upp úr eftirlitsstarfinu með lyfjabúðunum. Einkahvöt mín til þess að vera með frv. er sú, að jeg hefi þá trú, að það geti orðið til verndar fyrir bannlögin. Jeg mintist á það við 1. umr., hvernig Finnar fóru að, er bannlög komust þar á. Þeir settu helsta forgöngumann bannmálsins til að hafa eftirlit með bannlögunum, dr. Matti Helenius. En hjer varð lítilmenskan ofan á, að því leyti, að hjer fengust nógu margir til að ákveða laun eftirlitsmannsins svo lág, að ekki var hægt að ætlast til, að nokkur gæti gefið sig allan við starfinu fyrir þau laun. Jeg álít, að það sje til bóta, að hjer, í þessu frv., er ætlast til, að stofnað sje til vel launaðrar starfrækslu, svo hægt sje að heimta fult eftirlit af starfrækjanda. Eins og jeg hefi þegar áður sagt, þá álít jeg eftirlitsstarfið með lyfjabúðunum ekki þýðingarmikið, og ekki mikið verk að hafa það á hendi. Þarf því ekki há laun vegna þess starfs. En hitt tel jeg mikils um vert, að launa starfið svo, að hægt sje að krefjast þess af þeim, sem því gegnir, að hann hafi reglulegt eftirlit með áfengissölunni; og það er mikið verk, ef það er vel leyst af hendi. — Þetta ber okkur á milli, háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) og mjer.

Jeg get ekki tekið undir það, sem hann sagði um iðnaðarbrennivínið, að ekki ætti að leggja meira á það en annan vínanda, sem inn má flytja eftir bannlögunum. Jeg skal játa, að þetta væri rjett, væri iðnaðarbrennivínið notað á rjettan hátt. En nú er vitanlegt, að mjög lítið af þessu svo nefnda iðnaðarbrennivíni er notað til iðnaðar; jeg er viss um, að það er ekki meira en einn hundraðasti partur. Og úr því svo er, þá vil jeg leggja á þessi 99% sæmilega hátt gjald til ríkissjóðs. Það er leiðinlegt, að þessi 1/100 partur skuli ekki geta komist hjá gjaldinu. En það er svo oft, að saklaus verður að líða fyrir sekan, og er ekki hægt að komast hjá því. Meðan svo mikið er notað af iðnaðaráfenginu, álít jeg, að hátt gjald verði að borga af því, en ef svo skyldi reynast í framtíðinni, að notkun þess minkaði að miklum mun við framkvæmd þessara laga, er jeg fús á að leggja skattinn niður. En fyrst vil jeg sjá, hvernig fer.