19.04.1921
Efri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

105. mál, einkasala á áfengi

Frsm. (Halldór Steinsson):

Mjer þykir kenna æðimikils misskilnings hjá háttv. 2. landsk. þm. (S. E.). Valdið til úthlutunar áfengis er ekki hjá landlækni eða lögreglustjóra, heldur fyrst og fremst hjá stjórninni. Það er ætlast til, að stjórnin setji reglugerð um úthlutun allskonar áfengis, bæði til iðnaðar, suðuspritts og svo áfengis, er hefir meira en 211/4% alkohol. Hann fáraðist yfir stofnun embættis, sem mundi verða launað með 20–25 þús. kr. Hann kom nú með lítil rök, þessu máli sínu til stuðnings, enda hygg jeg, að það sje tekið úr loftinu, og má þar til samanburðar nefna laun embættismanna ríkisins í heild sinni. Okkur skilur mikið á um eftirlitið. Jeg legg mikið upp úr því, að eftirlitið sje gott, bæði með lyfjum og áfengi.