03.05.1921
Efri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

105. mál, einkasala á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg heyrði á ræðu háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) um þetta mál við fyrri hluta umr.

Jeg er á gagnstæðri skoðun við háttv. þm. (S. E.) um þá hlið þessa máls, er sjerstaklega snýr að bannlögunum og eftirliti með þeim. Jeg hygg, að það verði hægara miklu, ef þetta frv. verður að lögum. Mun reynslan best skera úr því.

Hvað kostnaðarhliðina snertir, þá legg jeg ekki áherslu á það, að verslunin með áfengi verði ríkissjóði hagur, þvert á móti. Það var ekki haft fyrir augum, er jeg bar fram lyfjafrv. En jeg tel sjálfsagt, að verslunin beri kostnaðinn við hana sjálfa og forstöðu hennar alla.

En jeg legg ekki aðaláhersluna á, hvort er þessara umtöluðu atriða, heldur eftirlitið með lyfjabúðunum. Því að þegar þeim er stöðugt að fjölga, liggur það í hlutarins eðli, að það þarf betra eftirlit með þeim en meðan þær voru eigi nema örfáar. Þá var fremur ástæða til að treysta því, að einungis góðir menn veldust að lyfjabúðunum. En eins og gengur, þegar mennirnir verða fleiri, sem reka sömu atvinnugrein, verða þeir um leið misjafnari, og þurfa því frekar eftirlits með.

Jeg er á þeirri skoðun og jeg hygg, að flestir læknar sjeu á því, að engum landlækni sje fyllilega fært að hafa eftirlitið, nema því aðeins, að hann hafi lyfjapróf, eða fengið sjerstakan undirbúning í lyfjafræði, t. d. verið í lyfjasölubúð um langan tíma, eða því um líkt, því að það er ekki alveg sama, hvort menn hafa sjerstakan undirbúning sem sjerfræðingar í störfum sínum eða ekki.

Þetta er því aðalatriðið, sem fyrir mjer vakir, að haft sje svo gott eftirlit með lyfjabúðum, að þar sje alt eins og það á að vera.