03.05.1921
Efri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2037 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

105. mál, einkasala á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg þarf ekki miklu að svara háttv. 2. landsk. þm. (S. E.). En þar sem hann sagði, að jeg hefði ekkert gert úr þeirri hlið málsins, sem að banninu sneri, þá er það alls ekki rjett, því að jeg sagði einmitt, að jeg teldi það mikilsvert atriði, þótt jeg teldi það eigi aðalatriðið.

Þá talaði háttv. þm. (S. E.) um það, að það mundi þykja alleinkennilegt ferðalag, þegar landlæknir þeysti um landið, til þess að líta eftir hjá læknum, með fjölda hesta, og lyfjabúðaeftirlitsmaðurinn þar á eftir með ennþá fleiri. Þessu atriði er tæplega svarandi, því að það veit háttv. þm. (S. E.), að lyfjabúðirnar eru í kaupstöðum og kauptúnum, og því er hægt fyrir eftirlitsmanninn að komast til þeirra á skipum, og ætti það ekki að verða mjög dýrt eða taka mjög mikinn tíma frá aðalstarfinu.

Jeg verð að telja það lítilfjörlega ástæðu hjá hv. þm. (S. E), sem hann bar fram fyrir því, að skifta þyrfti þessu starfi, því að jeg veit ekki betur en flestir lyfsalar sjeu kaupmenn líka. (S. E.: Ekki brennivínskaupmenn). Ó-jú, þeir eru flestir vínkaupmenn líka. Og ef nú sú skyldi verða raunin á, að sá maður, sem skipaður yrði til þess að hafa eftirlitið með lyfjabúðunum, væri eigi fær um að hafa víninnkaupin á hendi, þá væri eigi annað en sameina víneinkasöluna aftur tóbakseinkasölunni, sem nú er orðin að lögum.

Jeg get verið sammála háttv. þm. (S. E.) um það, að það nægi að vekja almenningsálitið á bannmálinu. Jeg held nú, að það sje nokkurn veginn vakandi í þessu máli, en get því miður eigi búist við, að það verði nokkurntíma einhlítt, því að það er eins og sumum þyki altaf „sport“ í því að brjóta bannlögin. Eina ráðið, sem auðvitað dugir til að vernda lögin, er kröftug framkvæmdarstjórn. En kröftug framkvæmdarstjórn hefir aldrei verið hjer, síðan þetta land bygðist. Þar hefir jafnan á brostið hjá oss. Það verður að viðurkennast. Tryggileg gæsla á bannlögunum kostar mikið.

En vjer getum eigi með öllu látið skeika að sköpuðu í þessu máli, og verður því að gera eitthvað til þess að bæta úr því.