13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

105. mál, einkasala á áfengi

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Jeg þarf ekki að hafa langa framsögu í máli þessu, þar sem hæstv. forsrh. (J. M.) hefir þegar reifað það fyrir háttv. deild. Allshn. hefir fallist á frv., en þó hafa 2 ritað undir nál. með fyrirvara, en jeg held jeg megi fullyrða, að það standi eingöngu í sambandi við það, að þeir hafi eitthvað að athuga við einstakar greinar frv., en sjeu hinsvegar ekki á móti frv. í sjálfu sjer.

Jeg finn ástæðu til að láta í ljós þakklæti mitt til háttv. Ed. fyrir að hafa skilið tóbakið frá áfenginu. En jeg hefði þó helst óskað, að sú háttv. deild hefði sjeð sjer fært að láta lyfjasölufrv. stjórnarinnar ná fram að ganga, að viðbættu áfenginu, þar sem þar gat verið um svo mikinn tekjuauka að ræða fyrir ríkissjóð, án þess þó, að lyfin þyrftu að vera dýrari en ella.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Hæstv. forsrh. (J. M.) hefir þegar minst á aðalatriði þess. Aðeins vildi jeg skjóta því til hæstv. stjórnar, að hún hafi sjerstakar gætur á því, að í þeirri reglugerð, sem hún á að setja samkvæmt 2. gr. frv., verði svo um hnútana búið, að girt sje fyrir það, að læknar og iðnaðarmenn geti misbrúkað rjettindi þau, er þeir hafa samkvæmt bannlögunum, svo sem orð leikur á, að þeir hafi gert og geri. Frá því sjónarmiði getur frv. þetta verið mjög þýðingarmikið.