13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2045 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

105. mál, einkasala á áfengi

Jón Þorláksson:

Jeg vil aðeins lýsa því yfir, að jeg er frv. þessu mótfallinn, þar sem jeg hefi ekki getað sjeð neina gilda ástæðu fyrir því. Allar áfengispantanir og innflutningur er nú undir eftirliti starfsmanns, sem ríkið skipar, og jeg hygg, að hann veiti öllu áfengi móttöku, sem til landsins flyst. Jeg get því ekki sjeð, að eftirlitið aukist nokkuð við það, þótt sú breyting verði á, að ríkissjóður kaupi vöruna. Það er hins vegar upplýst og viðurkent, að ríkissjóður eigi ekki að hafa neinar tekjur af þessari starfrækslu, en hitt er líka augljóst, að hjá útgjöldum kemst hann ekki, þar sem hann verður að leggja fyrirtækinu til rekstrarfje. Ennfremur er fyrirtækið þess eðlis, að þegar því er komið á laggirnar, vaknar ósjálfrátt tilhneiging til að draga meira og meira inn undir það, t.d. að útvega tilteknum mönnum atvinnu, eins og er aðalástæðan fyrir þessu frv. Jeg álít það hættulega braut að komast inn á að lögleiða opinbera starfrækslu í því skyni.

Jeg gæti annars beygt mig undir þetta frv., ef nokkrar ástæður væru færðar fyrir nauðsyn þess, en jeg fæ ekki sjeð, að neinar slíkar sjeu fyrir hendi.