13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

105. mál, einkasala á áfengi

Magnús Pjetursson:

Jeg vildi aðeins leyfa mjer með nokkrum orðum, ákveðnari en orð hæstv. forsrh. (J. M.), að mótmæla þeim ummælum háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að þetta frv. sje fram komið til þess að útvega einstaka manni atvinnu. Jeg veit, að það, sem kom frv. af stað, voru tryggingarnar. Það hefir oft komið upp kurr meðal lækna út af því, að lyfjabúðirnar hefðu ekki eins vandaðar vörur sem skyldi. En lyfjasölufrv. var einmitt til þess að tryggja vörugæðin. Þess vegna er það alveg áreiðanlegt, að það var ekki fyr en þetta frv. var til orðið, að farið var að athuga, hvort fær maður væri fyrir hendi. Háttv. þm. (J. Þ.) getur vel hrist höfuðið, og við getum staðið andspænis hvor öðrum og sagt: „klipt var það, skorið var það“, en jeg þykist vera þessu máli öllu talsvert kunnugri en háttv. þm. (J. Þ.).

Jeg vildi benda hv. deildarmönnum á, hvernig málið lítur út frá sjónarmiði lækna. Noti þeir lyf til lækninga, sem á að hafa ákveðnar verkanir, þá er mjög áríðandi, að þeir megi treysta því, að lyfið hafi þessar verkanir og sje algerlega ósvikið. En á því hefir einmitt borið erlendis nú í seinni tíð, að lyfin hafa ekki reynst vel. Er hjer með frv. þessu nokkur trygging fengin, enda þó að hún sje ekki jafnmikil og stjórnarfrv. veitti.