14.05.1921
Efri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2051 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

73. mál, eignarnám á landspildu Bolungarvíkurmölum

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Þetta frv. er komið frá háttv. Nd. og flutt þar af hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), og fer fram á það að heimila hreppsnefndinni í Hólshreppi að láta taka eignarnámi landspildu á Bolungarvíkurmölum. Frv. er flutt að tilhlutun hreppsnefndarinnar í Hólshreppi. En meðan málið var á ferðinni í þinginu komu fyrst fram óskir frá minni hluta hreppsnefndarinnar og um 40 hreppsbúum öðrum, um að fresta málinu. Byggja þeir þessar óskir sínar fyrst og fremst á því, að eigendaskifti á landspildu þessari muni á allmörgum næstu árum ekki geta orðið til hagsmuna fyrir Hólshrepp, og í öðru lagi á því, að eignarnám þetta muni leiða til stóraukinna fjárframlaga og útgjalda fyrir Hólshrepp.

Í annan stað liggur fyrir brjef frá biskupi í þessu máli, þar sem hann mælist til þess, að rjettindi Vatnsfjarðarkirkju verði undanskilin eignarnáminu, því að eins og frv. er orðað frá Nd., er einnig heimild til þess. Þessi tilmæli biskups eru rökstudd við ítarlegt álit frá prófastinum í Norður-Ísafjarðarsýslu, þar sem hann skýrir frá, að Vatnsfjarðarkirkja eigi helming vertolla af mölum þessum, og hafi nú árlega í tekjur af þeim um 600 kr., og gerir prófastur ráð fyrir, að þessar tekjur muni vaxa í framtíðinni að stórum mun.

Brjef prófasts bendir á, að verðmæti landspildu þessarar, sem liggur nærri brimbrjótnum, fari stöðugt vaxandi, og er það mjög eðlilegt. En af því er það aftur bein afleiðing, að hyggilegt er fyrir Hólshrepp að ná sem fyrst kaupum á landspildunni.

En viðvíkjandi því, hvort eigi að undanskilja rjett Vatnsfjarðarkirkju, þá getur nefndin fallist á það hjá prófasti, að meiri tekjur væru fyrir ríkissjóð, að kirkjan hjeldi þessum rjettindum sínum heldur en að sala á þeim færi fram. En þar sem sveitarfjelag á hjer hlut að máli, sem mun leika mikill hugur á að halda áfram lendingarbótum hjá brimbrjótnum, en það mun hafa mikil fjárframlög í för með sjer, þykir nefndinni rjett, að hreppnum gefist kostur á að eignast einnig rjettindi kirkjunnar yfir landspildunni, því sanngirni er í því, að hreppurinn megi einn njóta lendingarbóta þeirra, er hann kann að gera í framtíðinni. En hins vegar gerir nefndin ráð fyrir, að rjettindi landssjóðs verði sanngjarnlega metin, ef eignarnám fer fram.

Þá tel jeg rjett að taka það fram, að allar umbætur, sem hreppurinn gerir þarna til lendingarbóta, eru óbeinlínis til hags fyrir ríkissjóð, þar sem hjer er um mjög fiskisælan stað að ræða. Að öllu þessu athuguðu, og ennfremur af því, að landspilda þessi mun nú að mestu eign erlendrar veislunar. leggur nefndin til, að frv. nái fram að ganga óbreytt, og að hreppsnefndin fái heimild til að kaupa umrædda landspildu, ef henni sýnist svo, því að auðvitað hvílir engin skylda á henni að kaupa hana, ef henni þykir hún of dýr.