14.05.1921
Efri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (2263)

73. mál, eignarnám á landspildu Bolungarvíkurmölum

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg er í vafa um, hvort nauðsynlegt sje að gera þetta frv. að lögum nú, því að jeg verð altaf að taka mest tillit til þess, sem meiri hlutinn óskar. Því upprunalega mældu aðeins 4 af 7 hreppsnefndarmönnum í Hólshreppi með því, en 3 gegn því. En síðan hafa 2 af þessum 4 komið með mótmæli gegn því.

Um lendingarbæturnar er það að segja, að þær hafa aukið land þetta að verðmæti, en það er ekki Bolvíkingum til ágóða, heldur þvert á móti, því að þess dýrara er það fyrir hreppinn að kaupa það.

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) sagði, að útlend verslun ætti þetta land, og því væri frekar ástæða til fyrir hreppinn að kaupa það. Þetta er alveg rjett, að útlend verslun á landið, og jeg get verið honum sammála um það, að það sje betur komið hjá hreppnum en útlendri verslun. En nú stendur svo á, að það er einmitt verslunin, sem græðir mest á þessari sölu.

Jeg hefði því talið heppilegra að láta þetta bíða, því að skeð getur, að þessi verslun sundrist, eins og fleiri útlendar verslanir, og þá gæti svo farið, að innlendur kaupmaður fengi þetta land með betri kjörum, og fyrir því tel jeg talsvert vafamál, hvort eigi að samþykkja þetta frv.

Háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) hjelt því fram, að ef hreppurinn fengi þessa lóð, myndi hann gera lendingarbætur. En jeg held þvert á móti, að ef hann kaupir þetta land, þá geti hann ekki lagt mikið fje fram til lendingarbóta, því að það yrði honum algerlega ofvaxið. Og ríkissjóður fengi því að gera lendingarbæturnar.