14.05.1921
Efri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (2266)

73. mál, eignarnám á landspildu Bolungarvíkurmölum

Frsm. (Sigurður Eggerz):

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) kvað það óvenjulegt að verða við óskum svo lítils meiri hluta eins og var um þetta mál í hreppsnefndinni. Og svo taldi hann, að tveir af þeim fjórum, sem með voru, væru nú fallnir frá því. Nú hafa 40 manns sent Alþingi áskorun um að fresta málinu, en alls munu vera um 1000 manns í Bolungarvík, svo að af því verður ekki ráðið, hvoru megin vilji almennings þar er. Jeg þekki nú ekki hreppsnefndarmennina í Bolungarvík, svo að jeg get ekki sagt um, hvort nokkur af nöfnum þeirra, sem með kaupunum voru, eru undir áskoruninni. En heldur þykir mjer það ótrúlegt, að þeim hafi svo fljótt snúist hugur, og það enda þótt fullyrt sje af kunnugum, að erlenda verslunin, sem á landið, hafi „agiterað“ sterklega gegn því, að hreppurinn keypti.

Það er rjett, að brimbrjóturinn gerir eignina dýrari. Og eftir því, sem hann kemur betur að notum, eftir því verður hún dýrari, og gæti því svo farið, að síðar yrði ókleift fyrir hreppinn að kaupa, þótt ekki væri nú. Og þar sem erlend verslun á lóðina, þá verð jeg að segja, að minni ástæða er til að veita fje til framhalds brimbrjótnum. ef allur hagurinn á að renna í vasa erlendra manna, heldur en ef ríkið eða hreppurinn á í hlut. Þetta verður því einmitt til þess að mæla með því, að hreppurinn kaupi.

Jeg er þakklátur háttv. þm. Vestm. (K. E.) og háttv. 3. landsk. þm. (S. J.), sem báðir voru málinu hlyntir. Hinn síðarnefndi benti á það, sem er alveg satt, að jarðir hins opinbera hafa oft verið seldar einstökum mönnum, þótt vitanlega hafi verið stórtap að sölunni fyrir landssjóð. En ef einstaklingum hafa verið seldar jarðirnar, þá er þó miklu fremur ástæða til að selja þær hreppum, þegar hagsmunir flestallra hreppsbúa liggja við.

Háttv. þm. Vestm. (K. E.) vildi binda söluna því skilyrði, að eignin kæmist ekki aftur í hendur einstakra manna. Þetta mun nefndin að sjálfsögðu athuga.

Jeg óska því, að hv. deild láti þetta frv. ná fram að ganga. Og ef svo færi, sem háttv. 4. landsk. þm. (G.G.) hjelt, að matsverðið yrði of hátt, þá er á valdi hreppsins að ganga frá kaupunum, þar sem þetta er aðeins heimild.