30.03.1921
Neðri deild: 30. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2070 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jakob Möller):

Háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) lýsti því yfir, að hann væri meðnefndarmönnum sínum lítið þakklátur fyrir það að bera fram frv. þetta að sjer óvörum. Jeg held, að hann hafi gert fullmikið úr því, hve mjög það kom honum á óvart. Jeg hygg, að honum hafi verið eins kunnugt um málið eins og okkur hinum; en ef svo hefir ekki verið, má hann sjálfum sjer um kenna, því að sannleikurinn er sá, að það var erfitt og nær ómögulegt að fá hann á fundi, til að athuga og ræða málið. Nefndinni barst frv. fyrir páska, og hefir það verið til athugunar hjá henni síðan. Það er ekki meining nefndarinnar, að hún hafi lagt fullnaðarhönd á verkið; hún gerir einmitt ráð fyrir því að hafa málið áfram til athugunar, þegar þessari umr. er lokið.

Háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) hefir til þessa haft sama tíma til að athuga frv. eins og nefndin, og þó að honum hafi ekki enn unnist tími til að koma fram með sjerstakt álit, þá getur hann gert það fyrir 2. umr., og er þá ekki mikill skaði skeður.

Þá vík jeg mjer að þeim mótbárum, sem háttv. þm. (J. A. J.) bar fram, og gefa þær minni ástæðu til andsvara en búast mætti við af orðafjölda þeirra.

Háttv. þm. (J. A. J.) virtist álíta, að margumræddir sjóðir ættu að vera aðalmáttarviðir bankans, hann ætti að „forvalta“ þá og fengi ekki annað fje. Og háttv. þingmanni þótti það veik stoð, því að sjóðirnir væru bundnir, og væri því erfitt að velta þeim til. Þetta er einber misskilningur. Sjóðirnir eiga ekki að vera aðalfje bankans, heldur aðeins tryggingarfje. Það er satt, að sjóðirnir eru yfirleitt fastir, eins og háttv. þm. (J. A. J.) segir, en þó talar hann um, að óviðkunnanlegt sje að festa þá! Jeg sje því miður ekki samræmið í þessu. En jeg get bent háttv. þingmanni á, að það verður á engan hátt til að festa sjóðina að setja þá í bankann, heldur miklu fremur einmitt, að minsta kosti óbeint, til að losa þá, og jafnvel að margfalda þá, ef takast mætti að fá margfalt meira fje með sölu bankavaxtabrjefanna. En auðvitað verður ekki það fje, sem smátt og smátt afborgast af lánum sjóðanna, fast, heldur notar bankinn það að sjálfsögðu jafnóðum til nýrra lánveitinga, eða til þess að kaupa sín eigin vaxtabrjef.

Það er rjett, að bankinn getur ekki veitt eins væg kjör og t. d. ræktunarsjóður. En jeg vil spyrja háttv. þm. (J. A. J.), hve mikla þýðingu þær lánveitingar hafi nú fyrir búnaðarframkvæmdir í landinu. Hvaða hjálp er í raun og veru í þeim smálánum, sem hann getur veitt? Jeg er sannfærður um, að miklu meiri not verða að þessum peningum, ef þeir eru hafðir til þess að grundvalla almennan veðbanka.

Þá talaði háttv. þm. (J. A. J.) um það, að bankinn hefði átt að vera aðallega, eða helst eingöngu, fyrir landbúnað, og mjer skildist hæstv. atvrh. (P. J.) taka í sama streng. En stjórnin hefir lagt fyrir höfund frv. að rannsaka og gera tillögur um stofnun veðbanka fyrir alla atvinnuvegina, og er þess vegna undarlegt, að hæstv. ráðherra (P. J.) skuli segja þetta nú. Og háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) vil jeg spyrja einnar spurningar í þessu sambandi. Hefir hann trú á því, að betur gangi að selja bankavaxtabrjefin, ef bankamir eru tveir, heldur en ef aðeins er ein stofnun? í mínum augum væri slík trú fjarstæða.

Jeg vil spyrja þá báða, hæstv. atvrh. (P. J.) og háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.), hvort þeir, ef þeir ekki hafa trú á því, að ein tegund verðbrjefa öflugs veðbanka seljist, hafi þá meiri trú á því, að tvær tegundir slíkra brjefa, útgefnar af tveim smærri stofnunum, verði mjög eftirsóttar. Til þess, að nokkur von sje um sölu slíkra brjefa, er það nauðsynleg, að brjefin sjeu af almenningi talin fulltrygg; en slík tvískifting og sundrung mundi leiða til hins gagnstæða.

Yfirleitt legg jeg lítið upp úr fullyrðingum háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) um, að slík verðbrjef yrðu ekki keypt. Slíkar órökstuddar fullyrðingar eru mjög algengar, þegar menn eru á móti einhverju máli. En það ætti þó að liggja hverjum manni í augum uppi, að ef ein stofnun hefir litlar líkur til að geta selt slík brjef, þá verða líkurnar ekki glæsilegri fyrir tvær. Háttv. þm. (J. A. J.) spyr, hvaðan þeir peningar eigi að koma, sem nauðsynlegir sjeu til að veðbankinn geti unnið ætlunarverk sitt. Jeg læt mjer nægja að geta þess, að sparisjóðsfje Landsbankans mun nú vera að upphæð um 16 miljónir króna, og þótt ekki væri nema nokkur hluti af þeirri fjárupphæð, sem um væri að ræða, þá væri það nóg til þess að fara af stað með. Háttv. þm. (J. A. J.) taldi miklu heppilegra, og að mjer skildist einu færu leiðina til þess að bæta úr lánsþörf landbúnaðarins, að ríkissjóður tæki lán í útlöndum, lánaði fjeð út gegn vægum vöxtum og greiddi sjálfur vaxtamuninn. En með hvaða fje á ríkissjóður að borga vaxtamuninn? Yrði hann ekki að lokum að sækja það í vasa lánþeganna sjálfra, með hækkuðum sköttum eða tollum? Og hvað væri þá unnið?

Hvað því viðvíkur, sem þm. (J. A. J.) leggur einna mesta áherslu á, að veðlánavextir mundu hækka, ef þessari stofnun verði komið upp, þá hlýtur auðvitað svo að fara, meðan almennir vextir eru háir. En hvort er heppilegra, að tekið verði alveg fyrir öll lán, eða hitt, að vextir hækki nokkuð í bili? í mörgum tilfellum verða menn að taka lán, hvernig sem alt veltur, og jeg hygg, að menn kysu alment heldur að greiða nokkuð hærri vexti en að fá alls ekkert. Og þá er að athuga það, sem sagt hefir verið um þá hættu, sem af því stafaði, að vextir hækkuðu í bili. Mjer er ekki vel ljóst, hvernig hjá því verður komist, að vextir af fasteignalánunum hækki, þegar almennir vextir hækka. Þeir lækka svo auðvitað aftur að sama skapi sem vextir lækka yfirleitt. Þessi vaxtahækkun varir auðvitað ekki eilíflega, eða þarf ekki að vara, þó að um fasteignalán sje að ræða. Þegar vextirnir eru háir, taka menn auðvitað lánin til skemri tíma, og svo ný lán þegar vextirnir lækka aftur.

En svo er auðvitað ein leið til að halda vöxtunum niðri á öllum tímum, sem sje að lækka verð brjefanna, selja þau með meiri afföllum, ef menn kysu það heldur. Og í frv. er einmitt gert ráð fyrir því, að lán megi veita með tvennskonar vöxtum.

Háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) talaði mikið um það, að óheppilegt væri að stofna banka á þessum tímum. En hjer er í raun og veru alls ekki um stofnun nýs banka að ræða. Hjer er aðeins verið að tala um það að koma því, sem fyrir er, undir heppilegra fyrirkomulag.

Að bíða og bíða — já, það er þetta, sem er svo algengt þegar stungið er upp á einhverju nýju, að menn vilja bíða. En eftir hverju á að bíða? Háttv. þm. (J. A. J.) vill bíða eftir því, að vextirnir lækki. En það getur orðið löng bið. Sem stendur eru vextir að hækka. Sú bið gæti líka orðið dýr, ef enginn á að geta fengið nein fasteignalán meðan beðið er. Og ef hægt er að ráða fram úr málinu núna, þá mun það margborga sig, því að það er betra að fá lán með lakari kjörum en að fá alls ekki lán, þegar svo er ástatt, að menn geta alls ekki hjá því komist.

Háttv. þm. (J. A. J.) gerði að lokum stutt yfirlit yfir það, af hverju hann væri á móti frumvarpinu, og skal jeg þá stuttlega endurskoða það yfirlit. í fyrsta lagi, þá væri ekki hægt að selja brjefin. Þar til er því að svara, að þau eru óseljanleg nú sem stendur, og er þá að minsta kosti engu spilt, þó að reynt sje að breyta fyrirkomulaginu. Að öðru leyti hvílir sönnunarskyldan á háttv. þm. (J. A. J.) Reynslan sannar alls ekki, að brjefin hljóti að verða óseljanleg; sala ríkisskuldabrjefanna sannar einmitt það gagnstæða, því að hún gekk miklu betur en búast mátti við. — í öðru lagi óttast hv. þm. (J. A. J.) vaxtahækkunina. Jeg hefi þegar minst á það, að það væri þó betra en ef alls ekki væri unt að fá nein lán. Loks færir háttv. þm. (J. A. J.) fram þá ástæðu móti frv., að þetta breytta fyrirkomulag yrði svo dýrt. Þá er að meta það, hvort það muni svara kostnaði. „Ekkert fæst fyrir ekkert“. En vitanlega er það alveg rangt, og á misskilningi bygt, að bera saman rekstrarkostnað slíks banka og rekstrarkostnað sjóðanna, sem honum eru ætlaðir til tryggingar. Það er sem sje ekki aðalætlunarverk bankans að „forvalta“ þessa sjóði, og enginn samanburður á þessu tvennu mögulegur. Síðasta þing lagði svo mikið upp úr þessu máli, að sjálfsagt var að leggja frv. fyrir þetta þing, og er líklega hugur þingmanna óbreyttur enn. Og jeg skal taka það fram, að ástandið, sem nú er, og ástandið á árinu 1919 er alls ekki svo ólíkt, að það, sem þá var talið fært að gera, sje nú allsendis ófært.

Eins og jeg gat um í framsöguræðu minni, þá geng jeg að því sem gefnu, að allerfitt muni verða að selja brjef fyrst í stað, en það verður auðvitað altaf erfitt fyrst; fram hjá byrjunarörðugleikunum verður ekki komist, en jeg álít einmitt, eins og jeg hefi áður sagt, að heppilegustu tímarnir í því efni sjeu framundan.

Háttv. þm. (J. A. J.) sagði, að heppilegt væri að hafa veðbanka með þessu fyrirkomulagi í öðrum löndum, en öðru máli væri að gegna hjer. En af hverju? Hv. þm. (J. A. J.) kvað sparisjóðsfje vera þar svo miklu meira. En hjer er líka til nokkurt fje, þótt það sje að mun minna, en af því leiðir þá aðeins, að hjer verður að hafa alt í smærri stíl. Að það sjeu aðeins stóreignamenn, sem kaupa verðbrjef, — það má vel vera, en stóreignamenn eru líka til hjer, þó að í smærri stíl sje en í öðrum löndum. Undarleg eru og þau orð háttv. þm. (J. A. J.), að fráleitt sje, að menn fari að kaupa brjef fyrir 500 kr. Það eru vafalaust dæmi til þess, og jeg þekki jafnvel dæmi til þess, að einstakir menn hafa keypt bankavaxtabrjef fyrir smærri og stærri upphæðir; en auðvitað kaupa menn eftir efnum og ástæðum, einn fyrir 1000 kr., annar fyrir 100.

Jeg get þannig ekki lagt neitt upp úr athugasemdum háttv. þm. (J. A. J.) við frv., síst aðalmótbárunni, hinum háu vöxtum. Og jeg skal að lokum undirstrika það, hve varhugavert það gæti orðið að hætta við alt nú og láta algerlega þvertaka fyrir öll fasteignalán.