30.03.1921
Neðri deild: 30. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Sigurður Stefánsson:

Jeg verð að líta svo á, að þetta mál geti haft mjög mikla þýðingu fyrir annan aðalatvinnuveg voru, landbúnaðinn, sje það rækilega undirbúið, með það fyrst og fremst fyrir augum að efla þennan atvinnuveg. Jeg var á sínum tíma aðalflutningsmaður að þáltill. þeirri, sem getur um í greinargerð frv. En eins og háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) tók rjettilega fram, þá má fljótt sjá, að allmikið er vikið frá till. í frumvarpi þessu; hjer er miklu víðtækara verksvið en þar er farið fram á. Þar er aðeins um það að ræða að fá hagstæðari lán fyrir landbúnaðinn, en hjer er búið að blanda inn í þetta einnig bæjarfjelögum, sveitarfjelögum og kauptúnum. og svo eru lánin einnig látin ná til húsa í kaupstöðum. Þetta er nú æðimikill munur. Tillagan 1919 var aðeins endurtekning á áskorunum fyrri þinga, sem allar voru miðaðar við landbúnaðinn. Um þetta kenni jeg alls ekki manninum, sem var sendur utan til þess að kynna sjer málið. Hann hefir auðvitað athugað málið á þeim grundvelli, sem stjórnin hafði fyrir hann lagt. Og jeg ætla mjer heldur ekki að fara að liggja stjórninni neitt á hálsi fyrir það. En mjer þykir varhugavert að ætla sjer að hraða þessu máli svo mjög nú, því það þarf að vanda, sem lengi á að standa. Það hefir verið ófrávíkjanleg regla, að þegar stjórnin hefir sjálf tekið að sjer eitthvert mál til undirbúnings, þá hefir hún sjálf lagt það fyrir Alþingi með nauðsynlegum skýringum og greinargerð. En út af þessu er nú brugðið hjer. Það gat ekki komið fyrir stjórnina fyr en í þingbyrjun, og er því, eins og hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) sagði, ekki að búast við því, að henni hafi unnist tími til að athuga það til hlítar. Auk þess er dálítið undarleg fæðing þessa frv. í peningamálanefndinni. Frumvarpið er talið flutt af henni, en svo kemur það í ljós við þessar umræður, að nefndin er klofin. Þetta verður að teljast slæmur undirbúningur, enda er greinargerð sú, er frv. fylgir frá nefndinni, fremur fátækleg. Jeg hefði því kosið, að frv. yrði vísað aftur til nefndarinnar. Þá gæfist mönnum kostur á að sjá rökstutt nál. frá báðum hlutum nefndarinnar. Einnig yrði kjósendum mikill hagur að þessu, þar eð þeim gefst ekki eins fljótt kostur á að sjá ræður manna hjer í deildinni eins og nál. Mjer finst það líka vera óforsvaranleg fljótfærni að gefa ekki stjórninni ráðrúm til þess að athuga frv. og gera grein fyrir því. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg vilji ekki, að þetta mál nái sem fyrst fram að ganga, en jeg vil, að svo vel verði vandað til þessa máls, sem kostur er á. Og jeg sje ekki betra ráð til þess að leiða mál þetta til farsælla lykta en að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

„Í því trausti, að landsstjórnin taki málið til rækilegrar athugunar og undirbúnings til næsta Alþingis, og leggi frv. til laga um veðbanka fyrir landbúnaðinn fyrir þingið, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskránni“.

Mjer blandast ekki hugur um það, að hvernig sem fer um þetta mál nú, þá mun sá áhugi, sem í landinu er fyrir lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, ekki dofna. Jeg býst við því, að það verði verkefni þingsins árlega að vinna að þessu máli, þar til endir fæst á það, því að þær raddir munu ekki þagna, sem hljómað hafa svo hátt um það, að landbúnaðurinn þyrfti að fá hagfeldari lán. Jeg horfi ekki í það, að fullnaðarákvörðun um málið dragist eitt ár enn. Jeg vil, að málið verði betur undirbúið og að landsstjórnin beri það fram sem frv. frá sjer.