30.03.1921
Neðri deild: 30. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Pjetur Þórðarson:

Jeg er ekki gefinn fyrir það að taka þátt í umræðum, þegar mál er til 1. umr., en út af ágreiningi þeim um meðferð málsins, sem orðið hefir í nefndinni, get jeg ekki stilt mig um að segja nokkur orð.

Það er hverju orði sannara, sem háttv. frsm. nefndarinnar (Jak. M.) sagði, að ennþá hefir ekki unnist tími til að athuga þetta frv. í nefndinni. Tíminn hefir verið svo naumur vegna þess, að mennirnir hafa orðið að starfa í öðrum nefndum, og þessi nefnd auk þess haft ýms önnur stórmál til meðferðar, eins og t. d. viðskiftakreppumálið. Til þess að athuga þetta mál hefir hún orðið að nota sinn mjög svo takmarkaða starfstíma, með því, að í upphafi var álitið, að því máli lægi mjög mikið á.

Jeg fyrir mitt leyti verð nú að líta svo á, að ekki sje tiltækilegt að láta mál þetta ganga fram nú á þessu þingi. Um ástæður mínar þarf jeg ekki margt að segja, þar sem háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) hefir getið þeirra flestra. Jeg get þó ekki látið vera með að minnast á það, hvar mundi fást fje, til þess að reka þessa starfsemi með, og jeg verð að segja það, að það eru alls ekki lítið breyttir tímar síðan 1919, þótt háttv. frsm. (Jak. M.) sjái það ekki. Jeg hygg, að því er sparisjóðsfjenu viðvíkur, að aðrar þarfir, brýnni þarfir, verði, eins og nú stendur á, látnar ganga fyrir, til að nota það, heldur en t. d. að gera nauðsynlegar búnaðarframkvæmdir. Það mun áreiðanlega reynast svo, að ef hver og einn litast um í sínu eigin hjeraði, þá muni fljótt sjást, að aðrar þarfir kalla fljótar að. Og það er af þessum ástæðum, sem jeg býst við, að ekki verði hægt að koma bankanum á fót nú þegar, heldur verði að bíða betri tíma. Jeg fæ ekki sjeð, að málið bíði neinn skaða, þótt því verði frestað; miklu fremur virðist ástæða til þess að athuga málið miklu betur en tími er til nú á þessu þingi.

Loks get jeg ekki látið hjá líða að minnast á ræktunarsjóðinn, eins og hann er notaður nú. Í greinargerð frv. er þess getið, með því að taka þar upp þál.till. frá 1919, að tilgangur þessa frv. sje sjerstaklega að veita bændum „hagkvæmari lán til búnaðarbóta“ en þá voru fáanleg. En þau litlu lán úr ræktunarsjóðnum, er fengist hafa og fást, eru einhver þau hagkvœmustu lán, sem hægt er að fá. Þau eru veitt gegn ábyrgð sveitarfjelaga, og lántakendur geta komið sjer saman við sveitarstjórnirnar um það, hvernig tryggingunni skuli vera varið. Þau eru veitt til 20 ára, með 4% vöxtum, og ekki afborguð fyrstu 4 árin. Bankinn gæti að líkindum aldrei veitt lán með þeim kjörum.

Annars ætla jeg mjer eigi að lengja umræður meira að þessu sinni; hefi aðeins sagt þetta til að lýsa afstöðu minni til málsins. Vil að síðustu geta þess, að jeg hefi ekkert út á undirbúning málsins frá höfundinum að setja, og er mjög þakklátur fyrir hið mikla starf, sem hr. Böðvar Bjarkan hefir leyst af hendi til undirbúnings þessu máli, þó jeg hins vegar verði að líta svo á, að ávöxtur þeirrar iðju verði að bíða betri tíma, þegar von er meiri árangurs en nú sýnist mega vænta.