21.02.1921
Efri deild: 5. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

32. mál, friðun rjúpna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi ekkert á móti því, að máli þessu verði vísað til nefndar, en virðist það samt ekki nauðsynlegt. En ef hin almennu friðunarlög verða tekin til meðferðar, þá er sjálfsagt að vísa því til nefndar. Jeg sje ekki ástæðu til þess að ákveða nú þegar, að friðunartíminn skuli vera lengri en frv. gerir ráð fyrir, því ef þinginu 1922 sýnist ástæða til þess, eftir upplýsingum utan af landinu, getur það framlengt friðunartímann. En bæði er það, að rjúpunni fjölgar mjög ört, ef hún ekki er drepin, og nú er um mildan vetur að ræða, svo ekki er víst, að þörf þyki að framlengja friðunartímann.

Hvað það snertir, að hafa friðunartímann yfir allan veturinn, eins og háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) mintist á, þá er það atriði, sem vert er fyrir væntanlega nefnd að athuga, en óþarfi að ræða um það nú.

En það verð jeg að segja hv. nefnd, að ef farið verður að taka upp almennar breytingar á fuglafriðunarlögunum, þá er ekki víst, hvernig þessu frv. reiðir af, og á undanförnum þingum hafa ekki í neinu máli verið jafnsundurleitar skoðanir og í þessu máli, og jafnmikið verið deilt um. Og þar sem fyrir þessu þingi liggja svo mörg áríðandi frumvörp, þá verða menn að stilla sig um að fást við það, sem vel getur beðið, og tefja ekki tímann að ástæðulausu.