30.03.1921
Neðri deild: 30. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Jeg ætlaði eigi að taka til máls við 1. umr. frv., en vegna þess, að rökstudd dagskrá um frávísun málsins er nú fram komin, og því óvíst, hvort málið liggur hjer fyrir aftur til umr. á þessu þingi, þá vil jeg fara um það nokkrum orðum.

Tilmæli landbúnaðarins um sjerstaka lánsstofnun virðast aðallega sprottin af því, að hinn núverandi fasteignabanki, veðdeild Landsbankans, vegna lagaákvæða og tilhögunar, hefir reynst aðallega nothæfur fyrir húsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum, en miklu síður fyrir landbúnaðinn. Nú á þessi fasteignabanki að taka við starfi veðdeildanna, og auk þess að fullnægja þörfum landbúnaðarins, og er þá á það að líta, hvort lagasetning og tilhögun muni vera svo frábreytt því, sem sem nú er um veðdeild Landsbankans, að von sje um, að hann komi að tilætluðum notum á því sviði.

Jeg tel landbúnaðinn þarfnast þrenskonar lána:

1. Rekstrarlán. Um þau er ekki að ræða í þessu sambandi, því að hvorki veðdeildinni nje hinum fyrirhugaða fasteignabanka er ætlað að fullnægja þeirri þörf.

2. Lán til húsabygginga og jarðakaupa. Þau lán eru að öllu leyti sama eðlis og fasteignalán þau til húsabygginga í kaupstöðum, sem veðdeildin hefir hingað til veitt. Þar er um talsverða lánsupphæð að ræða í hvert sinn, venjulega svo skiftir þúsundum króna; lánið má vera — og þarf að vera — til langs tíma, og það er að minsta kosti hugsanlegt, að afgreiða megi slík lán frá einni stofnun í Reykjavík til alls landsins. Til þessa flokks má einnig telja lán til meiri háttar fjelagsframkvæmda á sviði landbúnaðarins, svo sem til samáveitufyrirtækja.

3. Jarðabótalán. Þau þurfa að vera með talsvert öðrum hætti en venjuleg fasteignalán, eru hins vegar alls ekki rekstrarlán, og skal jeg reyna að gera grein fyrir hugsunum mínum um það efni.

Eins og kunnugt er, var gert mikið að jarðabótum, einkum túnasljettun, hjer á landi á tímabilinu frá 1890 og nokkuð fram yfir aldamót. Landssjóður styrkti þetta með dálitlu fjárframlagi til jarðabótanna, sem skiftist milli þeirra, er unnu jarðabæturnar, eftir dagsverkatölu. Nú hafa ástæður breyst. Styrkurinn var talinn eftir af óvitrum mönnum, og mun nú niður fallinn; fólki hefir fækkað í sveitunum, kaupgjald hækkað svo, að jarðabætur þykja sem stendur lítt arðvænlegar, og áhugi landbúnaðarforkólfanna hefir dregist frá jarðabótunum og að ýmsu öðru, sjerstaklega verslunarmálum, sem nú á síðari tímum virðast vera orðin aðaláhugamál bænda, eins og reyndar flestra landsmanna. Af öllum þessum ástæðum má nú segja, að kyrstaða sje komin á jarðabæturnar. Sumir kunna að álíta, annað hvort að það geri ekkert til, þótt þær hætti, eða þá að ekki sje unt neitt við því að gera. En jeg held, að hvorttveggja sje skakt. Jeg held einmitt, að það sje þessum gömlu jarðabótum að þakka, að landbúnaðurinn hefir staðist þá fólksfækkun, sem hann hefir orðið fyrir af völdum sjávarútvegsins. Það er auðsætt, að það er jarðabótunum að þakka, að hægt hefir verið að halda jafnmiklum búskap og áður var, þrátt fyrir þá miklu fólksfæð, sem nú er. En ef búskapurinn ætti að ganga saman í sama hlutfalli og fólki hefir fækkað við hann, þá væri stórt skarð höggvið í hann.

Samkvæmt þessu verð jeg að álíta það nauðsyn, að sjeð sje fyrir, að jarðabótunum verði haldið áfram. En til þess verður bændum að gefast kostur á lánum til jarðabóta, með alt öðrum kjörum en almenn fasteignalán eru veitt með. Jarðabótalánin þurfa oft að vera smá og vera veitt eða útborguð með lítilli upphæð á hverju ári. Er heppilegast, að sá bóndi, sem jarðabætur vill gera, eigi víst að geta fengið ákveðinn hluta kostnaðarins að láni, jafnóðum og jarðabótin er fullgerð. Þessi lán þurfa ekki að vera til eins langs tíma og húsabygginga og jarðakaupalán, sem lánuð eru til 30–40 ára.

Lántakendur til jarðabóta þurfa að vera margir, upphæðirnar smáar og lánin oft veitt. En jeg held, að ókleift sje að framkvæma slíkt með þeirri tilhögun, sem er á veðdeild Landsbankans, og sem frv. ætlast til að verði á hinum fyrirhugaða banka. Mjer finst vanta í frv., að tilraun sje gerð til þess að setja upp hagkvæma stofnun til að veita lán til jarðabóta, sem gætu orðið einstaklingum að gagni. Slík stofnun þarf ekki endilega að vera sjerstakur banki, en að minsta kosti sjerstök deild við banka. Jeg ætla ekki neitt sjerstaklega að telja það eftir, þó þeim fjármunum ríkissjóðs, sem hægt er að festa hendur á, sje varið til tryggingar fasteignabankanum. En mjer þykir afar óeðlilegt, að ræktunarsjóðnum sje varið til annara lána en jarðræktarlána, eða til tryggingar öðrum lánum. Og jeg er sannfærður um, að með þeirri tilhögun, sem frv. fer fram á, kemur bankinn ekki að notum til jarðabótalána, nema aðeins fyrir stærstu jarðabæturnar.

Mál þetta er mjög illa búið í hendur þingmanna. Engar athugasemdir fylgja frv. og ekki nema alveg gagnslaus greinargerð. Þótt 2 bindi af ritgerðum og athugasemdum um frv. liggi frammi á lestrarsalnum, þá hafa vitanlega fæstir þm. tíma til að kynna sjer þau gögn til neinnar hlítar. Jeg tel það illa farið, að frv. hefir ekki fengið þann undirbúning, sem svona mikilsvarðandi lagafyrirmæli eru vön að fá og eiga að fá; fyrst undirbúning sjerfræðinga, síðan nána athugun hjá landsstjórn og loks nefnd þm. En mjer finst þetta þó ekki vera næg ástæða til að vísa frv. frá 1. umr. með rökstuddri dagskrá, þar sem frsm. peningamálanefndarinnar (Jak. M.) hefir lýst því yfir, að hún sje fús til að athuga það til 2. umr., og jafnvel látið í ljós, að von sje á brtt. frá meiri hl. nefndarinnar. Þá mun ekki síður vera von á brtt. frá minni hl. Umræður og athugun eftir föngum geta aðeins orðið málinu til góðs. Jeg vil því skjóta því til hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), hvort hann vilji ekki taka aftur till. sína til rökstuddrar dagskrár við þessa umr., svo málið geti komist til 2. umr. Jeg treysti því, að nefndin muni þá íhuga málið rækilega, ef hún getur það, án þess að tefja með því fyrir öðrum enn brýnni málum, sem undir hana liggja.