30.03.1921
Neðri deild: 30. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Magnús Jónsson:

Það er aðeins út af þessari till. til rökstuddrar dagskrár frá háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) að jeg tek til máls. Háttv. þm. Dala. (B. J.) hefir að nokkru leyti tekið af mjer ómakið við að mæla á móti henni, þó jeg ekki vildi hafa samskonar formála og hann hafði, eða leggja alt það inn í till. háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), sem hann gerði.

Háttv. þm. N.-Ísf. færði þau rök sjerstaklega fyrir till. sinni, að of lítil greinargerð fylgdi frv. Það er satt, að greinargerð nefndarinnar er stutt, en hún vísar til greinargerðar, sem samin er af þeim manni, sem undirbjó frv., hr. Böðvari Bjarkan, en sú greinargerð er svo ítarleg og greinileg, að tæplega verður um bætt.

Það er athugavert, að í dagskránni felst meira en það að vísa málinu frá nú. Það felst í henni sjerstök skoðun á frv., sem leggur aðaláhersluna á, að stjórnin leggi fyrir næsta Alþingi frv. til laga um lánsstofnun fyrir landbúnaðinn einan. Það er mjög varhugavert fyrir deildina að taka slíka afstöðu til frv. á þessu stígi málsins, áður en það hefir nokkurn hlut verið rætt eða íhugað af þm. sjálfum. Það gæti líka haft ýmsar illar afleiðingar, ef ætti að takmarka lánsstofnunina við landbúnaðinn einan. Það er t. d. ófært að nota suma af þeim opinberu sjóðum, sem ráðgert er að nota við hinn fyrirhugaða banka, og sem hann verður að fá til umráða, ef hann á að geta staðist, einvörðungu landbúnaðinum í vil. Það má nefna t. d. viðlagasjóðinn.

Jeg verð því að telja það sjerstaklega varhugavert að vísa málinu frá 1. umr. Það er í rauninni alveg óafsakanlegt af þinginu að taka slíka afstöðu til málsins, áður en nefndin hefir fengið tækifæri til að gera málinu full skil, eins og hún hefir lýst sig fúsa til að gera. Það getur því ekki komið til mála annað en vísa frv. til 2. umr.

Þá eru það nokkur orð, viðvíkjandi ástæðum háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.). Hann áleit varhugavert að stofna þennan banka. Þær röksemdir, sem hann færði fyrir þeirri skoðun sinni. geta verið góðar, hver í sínu lagi. En þar sem hann ber þær fram, hverja við annarar hlið, þá minnir það mig á söguna um manninn, sem fjekk hjeðan pott og skilaði honum aftur brotnum. Hann afsakaði sig þannig, að í fyrsta lagi hefði hann aldrei fengið pottinn lánaðan, í öðru lagi hefði potturinn verið brotinn þegar hann fjekk hann, og í þriðja lagi hefði hann verið heill þegar hann skilaði honum aftur.

Háttv. þm. (J. A. J.) taldi þær tvær ástæður, hvora við annarar hlið, að vaxabrjef bankans mundu ekki seljast, vegna þess, að þau gæfu svo lága vexti, og á hinn bóginn, að vextir þeir, sem bankinn yrði að taka, mundu verða of háir. Þessar ástæður eru báðar móti stofnun bankans, ef þær standa hvor í sínu lagi, en báðar saman standast þær ekki. Ef bankinn tekur háa vexti, þá getur hann einnig gefið háa vexti af brjefum sínum, og þá ættu þau að seljast, því að úr hinni ástæðunni geri jeg minna, að fje sje ekki til í landinu, ættu menn aðeins kost á brjefum, er gæfu sæmilegan arð. Þó að ef til vill fáist ekki öll sú upphæð, sem boðin væri út, þá er það annað mál, enda alveg ósagt, að hún fengist ekki. Taki maður á hinn bóginn þá ástæðu, að brjefin seldust ekki, vegna þess, hve lága vexti þau bera, ja, þá er heldur engin ástæða til að hækka vextina, og þá stendur alt við sama og nú. Lágir vextir og litlir peningar eða engir til að lána.

Ástæðurnar útiloka þannig hvor aðra. Að ekki megi nú stofna bankann, vegna hinna háu vaxta, er sama sem að segja, að þá ætti bankinn að hætta að starfa í hvert sinn, sem vaxtakjör yrðu erfið í landinu. Auðvitað verða vaxtakjör þessa banka að fylgja að einhverju leyti þeim vaxtakjörum, sem eru í landinu.

Mjer þykir ekki ósennilegt, að að minsta kosti einhverjir af þeim sjóðum, sem taka skal til stofnunar og tryggingar bankanum, verði að breyta vaxtakjörum sínum, svo að ekki tjáir að vitna í það, hvaða vexti þeir taki. Að minsta kosti er svo um viðlagasjóð. Yfirleitt verður að miða hagnað eða skaða af því að stofna þennan banka við það, með hvaða kjörum sje nú hægt af fá lán til þess, sem hann á að annast, og svo með hvaða kjörum bankinn gæti lánað, og er þá ekki vafi, að stofnun bankans bætir úr þörf. Svo framarlega sem þessar framkvæmdir eru nauðsynlegar, og það efast enginn um, þá þarf til þeirra lán. Dugir þá lítið að vitna í lága vexti sjóðanna, því að þeirra fje dugir ekkert. Tilgangurinn með stofnun bankaus er einmitt sá að „mobilisera“ föstu verðmæti í landinu og auka gildi þessara sjóða, sem um er rætt, og geta á þann hátt veitt lán með lægri vöxtum og betri borgunarskilmálum en nú er kostur.

Hvort hv. þm. N.-Ísf. (S. St.)tekur aftur dagskrá sína, er mjer ekki kunnugt, en mjer þætti vænt um, að hann vildi verða við þeirri áskorun, sem komið hefir til hans um það. Ef hann ekki gerir það, þá er jeg að minsta kosti ákveðinn í að greiða atkvæði á móti henni.