05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Út af nokkrum orðum, sem fallið hafa um mál þetta áður hjer í deildinni, verð jeg að taka það aftur fram um afstöðu stjórnarinnar, að hún gat ekki fjallað um málið eins nákvæmlega og hún hefði viljað fyrir þing, eða veitt svo miklu máli eins staðgóðan undirbúning, sem hún taldi sjálfsagt. ef hún hefði ætlað að flytja það sjálf. Málið er svo umfangsmikið, að langan tíma þarf til þess að setja sig inn í það og athuga frá öllum hliðum, en án þess vildi jeg ekki flytja það. Það er þó síður en svo, að jeg hafi nokkuð á móti því, þó málið sje nú komið fram og verði athugað í þinginu, hvað sem annars verður um það á þessu þingi.