05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Eiríkur Einarsson:

Þeir munu sjálfsagt vera fleiri en jeg, sem eru þeirrar skoðunar, að ef stofna á sameiginlegan fasteignabanka fyrir landbúnaðarsveitir og kaupstaði, þurfi að gerá einhverjar ráðstafanir til þess að tryggja búnaðinum þann forgangsrjett, sem hann á, í hlutfalli við það, sem hann leggur fram til bankans, beinlínis eða óbeinlínis, enda hefir þetta komið fram í ræðu háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Og í samræmi við þessa skoðun var það, að jeg hafði hugsað mjer að koma fram með nokkrar brtt., sem einkum færu í þessa átt, að tryggja landbúnaðinum forgang. Annars skal jeg ekki fjölyrða um málið nú. Jeg tel víst, að háttv. deild sýni þessu stórmáli þá sjálfsögðu sanngirni að lofa því að ganga tregðulaust til næstu umræðu, enda er málið yfirleitt mjög rækilega undirbúið af höf. frv., og verður enginn ásakaður í því efni. eða um flutning málsins, hvorki höf. nje peningamálanefnd, nema þá helst ef vera skyldi stjórnin, sem átti kost á að fá málið í sínar hendur í janúar, en fer nú hjá sjer, eins og hún sje því ókunnug, einu merkasta máli þingsins og undirbúnu á hennar vegum.