05.04.1921
Neðri deild: 35. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg get í rauninni látið mjer nægja að vísa til fyrri ummæla minna, sem svar við síðustu ummælum háttv. 1. þm. Árn. (E. E.). Stjórnin hefir, eins og alkunnugt er, svo mörgum málum að gegna fyrir þetta þing, að hún treystist ekki til að veita þessu máli þann undirbúning og athugun, sem hún áleit slíku máli sæma. Þess vegna svaraði hún höf. frv., sem hún hafði falið málið, þegar hann um nýársleytið ljet hana í símtali frá Akureyri vita, að nú gæti hann haft það til og sent það með næsta pósti, að hennar vegna þyrfti ekki að senda það að því sinni; hún gæti ekki hvort sem væri annað því fyrir þing, enda hafði hún þá annað bankamál til meðferðar. Þetta mál kom heldur ekki til stjórnarinnar fyr en rjett í þingbyrjun. Annars finst mjer stjórnin síst eiga skilið slettur fyrir það, þótt hún vilji ganga alúðlega að undirbúningi mála sinna, og taka ekki öllu meira til flutnings í einu en hún getur fylgt eftir með eigin þekkingu og rannsókn, þegar því verður við komið. Og fyrir afskiftin af þessu máli á hún það síst skilið.

Nú þegar höf. svo kom suður með frv. og sýndi mjer það, og við fórum að ræða um málið, sá jeg að minni ástæða var til að draga málið, þó jeg hins vegar teldi, að stjórnin hefði ekki svo áttað sig á því, að hún gæti flutt það inn á þing. Enda ljet jeg þá í ljós, að ef einhver þingmaður vildi flytja það, myndi jeg mæla með því, að þessu máli yrði sint á meðan tími ynnist til, þó að jeg teldi mig ekki eins kunnugan því og handgenginn eins og jeg hefði óskað.