14.04.1921
Neðri deild: 43. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (2304)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Jeg get búist við því að eiga erfitt uppdráttar með brtt. mínar á þskj. 290, þar sem jeg á að vega á tvær hendur. Annars vegar er háttv. meiri hl., sem er mótfallinn öllum breytingum á frv., og hins vegar háttv. minni hl., sem vill fella frv. Brtt. þessar hníga í þá átt, sem jeg gat um við 1. umr., og skal jeg nú gera nokkru nánari grein fyrir þeim.

Það, sem jeg aðallega finn frv. til foráttu, er það, að samkvæmt því á ein og sama stofnun að veita allskonar lán til fasteigna, bæði í kauptúnum og sveitum. Nú er það vitanlegt, að veðdeildin veitir aðallega lán til húsabygginga í kaupstöðum og þorpum. Hún veitir að vísu að einhverju leyti lán til jarðakaupa, en lítið af jarðabótalánum, og hefir því ekki þótt koma landbúnaðinum að nægilegum notum.

Hin upphaflega hreyfing, sem kom þessu máli á stað, stefndi að því að koma á fót lánsstofnun fyrir landbúnaðinn. En ef tilhögun þessa frv. verður tekin, þá er þar með efnt til sífeldrar togstreitu milli sveitanna annarsvegar og kauptúna og sjávarþorpa hins vegar.

Allir vita, að undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, getur hin fyrirhugaða bankastofnun ekki fengið fje nema af mjög skornum skamti, því miður, þar sem nú er svo þröngt í búi, að naumast er hægt að útvega fje fyrir nauðsynlegustu greiðslum til útlanda. Fyrir mig sem kaupstaðarbúa er það sjerstaklega óaðgengilegt að taka þær fúlgur handa tryggingarsjóði bankans, sem frv. fer fram á, nefnilega, að mikill hluti af stofnfjenu er tekinn frá landbúnaðinum. Ræktunarsjóðurinn og kirkjujarðasjóðurinn eru sjerstaklega frá landbúnaðinum runnir, og af því leiðir, að bændur telja eðlilegt, að sveitirnar eigi að hafa forgangsrjett að lánum úr bankanum, en það getur orðið nóg til að koma á stað togstreitu milli sveitanna og kauptúnanna, sem getur haft mjög illar afleiðingar. Hún getur einnig orðið til hnekkis fyrir afnot sveitanna af bankanum, því eins og háttv. frsm. (Jak. M.) mintist á í öðru sambandi, þá gæti forgangsrjettur landbúnaðarins gert stofnunina óvinsæla hjá þeim flokki manna, sem annars væru líklegastir til að kaupa bankavaxtabrjefin, vegna þess, að þeir hafa helst efni til þess. Og afleiðing þess yrði sífeldur veltufjárskortur.

Sú tilhögun, að hafa aðeins eina lánsstofnun fyrir allar þessar lánategundir, er miðuð við útlent ástand. En það er engin sönnun þess, að það eigi við hjer á landi, enda held jeg, að svo sje óefað ekki. Það er skoðun háttv. nefndar, og mjer er sagt, að það sje líka skoðun höfundar frv., að litlar líkur sjeu til, að bankavaxtabrjef veðbankans muni seljast erlendis. Það er þá aðeins innlendi markaðurinn, sem þeir treysta á. En ef bankinn er óskiftur og lánar jöfnum höndum til landbúnaðar og til húsabygginga í kaupstöðum, þá býst jeg við, að hann missi af töluverðum markaði fyrir bankavaxtabrjef, sem opinn stæði, ef starfsemi hans væri aðgreind í tvent.

Jeg fer ekki svo langt í brtt. mínum að stinga upp á tveim lánsstofnunum, heldur legg jeg til, að sett verði á stofn sjerstök deild fyrir jarðræktarlán, en aðaldeild bankans veiti lán til húsabygginga í kaupstöðum og sveitum, og til jarðakaupa. Ástæða mín er fyrst og fremst sú, að óeðlilegt er að verja ræktunarsjóðnum til annars en jarðræktar. Jeg er ósammála því, að rjett sje að auka starfsemi ræktunarsjóðsins með því, að landið taki lán, honum til viðbótar, erlendis. Jeg vil halda þeirri leið, sem frv. gerir ráð fyrir, að nota sjóðina sem stofnsjóði og tryggingar, en gefa svo út bankavaxtabrjef, til þess að afla rekstrarfjár.

Að sjálfsögðu verður húsabygginga- og jarðakaupadeildin aðaldeild bankans. Til jarðræktar eru lán miklu smærri, en veitt oft og til styttri tíma. Það kemur ekki til mála að meta jarðabótina sjálfa fyrirfram, heldur verður að láta fara fram úttekt eða virðing á henni fullgerðri, þegar bletturinn er kominn í rækt. Eins og jeg hefi tekið fram, getur lánstími jarðræktarlána venjulega verið styttri en annara fasteignalána. Það eru að vísu til undantekningar, svo sem stórfeldar áveitur, en lán til þeirra ætti aðaldeild bankans að veita. Jeg hugsa mjer, að jarðræktarlánin verði ekki veitt til lengri tíma en venjulegt hefir verið, og þá vitanlega gegn sæmilegum tryggingum. En þá er líka hægt að gefa bankavaxtabrjef þeirrar deildar út til skemri tíma, svo að sparisjóðum úti um land ætti að vera hagur að kaupa slík brjef. Jeg hefi orðið var við slíkar hugsanir í frv., og sje því, að þetta hefir meðfram vakað fyrir höfundi frv. En það er ekki tekið nógu föstum tökum á því, til þess, að hægt sje að framkvæma lánveitingar til jarðabóta, svo nokkur veigur sje í þeim.

Skal jeg svo leyfa mjer að víkja nokkuð að einstökum brtt. mínum, umfram það, sem jeg hefi þegar gert. Viðvíkjandi 1. og 2. brtt. get jeg að mestu látið mjer nægja að vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt. Þar er gert ráð fyrir, að bankavaxtabrjefin megi nema alt að áttfaldri upphæð stofnfjár deildarinnar. Um upphæðina má sjálfsagt deila, en þó býst jeg við, að þetta þyki ekki fjarri lagi.

Um 3. brtt., um stofnsjóð aðaldeildarinnar, er það að segja, að hún miðar að því, að bankinn fái fje sitt, eins og áður var gert ráð fyrir — því jeg hefi ekki lækkað upphæðina —, en með heppilegri aðferð fyrir ríkissjóðinn, án þess þó að það sje í rauninni nokkuð óheppilegra fyrir bankann. Það er sem sje farið fram á, að landsstjórnin greiði stofnfje bankans — auk peninga og skuldabrjefa ræktunarsjóðs — smámsaman, eftir því, sem þörf er á. Auk þess er gert ráð fyrir því, að taka megi lán til þessa, þó ekki meira en það, sem á vantar í 3 miljónirnar, þegar búið er að greiða peninga, bankavaxta- og skuldabrjef kirkjujarðasjóðs og viðlagasjóðs.

Um vaxtahæðina, sem talað er um seinna í sömu greininni, má geta þess, að ef til v:ll væri þó rjettara að hafa þá 4% frá upphafi, í stað þess, sem þar er gert ráð fyrir fyrstu 10 árin.

4. brtt. er aðeins afleiðing hinna.

5. brtt. er til þess fram komin að gera greiðari aðgang að jarðræktarlánunum. Í stað þess, að lán megi ekki fara fram úr helmingi skattvirðingarverðs eignarinnar, er hjer gert ráð fyrir því, að lánið megi nema alt að 3/5 af verðgildi jarðabótarinnar fullgerðrar.

7. brtt. leiðir af því, sem áður er komið.

Þá er 8. brtt. við 16. gr., og er nokkuð annars eðlis en hinar. Því jeg kann ekki við það yfirleitt, og finst ótækt að setja það í lög, að bæjarstjórnir og sýslunefndir þurfi að fá leyfi til þess hjá öðrum en landsstjórninni — í þessu tilfelli hjá veðbankanum — að taka nýtt lán, þó þær hafi tekið annað áður hjá bankanum.

Hitt er annað mál, að setja mætti einhver slík skilyrði í lánssamning í hvert einstakt skifti, ef ástæða þætti til þess. Annað atriði er einnig í 16. gr., sem jeg er í efa um, þó jeg hafi ekki gert sjerstaka brtt. við það. Mjer er ekki ljóst, hver ætlunin er með niðurjöfnun þeirri, sem þar er talað um, hvort ætlast er til einhverrar aukaniðurjöfnunar í þessu skyni, eða hvort átt er við venjulega lögheimilaða niðurjöfnun.

Svo er 9. brtt. við 22. gr., um upphæð lántökugjaldsins. En það er gjald, sem lántakandi á að greiða, þegar hann fær lánið, án þess að nokkru sinni hafi eiginlega verið gerð grein fyrir því, til hvers þetta gjald væri, enda hefir það altaf mælst hjer illa fyrir, frá því að það var fyrst innleitt, en það mun hafa verið með 4. fl. veðdeildarinnar. Jeg hefi þó ekki farið fram á það, að þetta gjald yrði alveg afnumið, heldur gert ráð fyrir hinu, að það fari aldrei fram úr l(ý, sem er lágmarkið eftir frv., en hámarkið er þar 3%.

10. brtt., einnig við 22. gr., er aðeins til þess að taka af allan vafa um það, á hverjum tilkynningarskyldan hvíli.

11. brtt., við 25. gr., er sjálfsögð smábreyting, í samræmi við hinar.

Jeg þarf svo ekki að fjölyrða frekar um þetta að sinni. Þó jeg sje í efa um það hvort frv. hafi fengið þann undirbúning, að rjett sje að það fái framgang nú, álít jeg málið í heild sinni svo merkilegt, að jeg hefi viljað gera mitt til þess, að það færi þannig út úr deildinni, að jeg gæti unað við það. Þess vegna mun jeg greiða því atkvæði til 3. umr., án þess að þar með sje nokkuð sagt um atkvæði mitt um málið frá 3. umr. Það hlýtur að fara eftir því, hvernig fer um þær breytingar, sem jeg tel nauðsynlegt að gerðar verði á frv. Hins vegar vil jeg taka það fram, og biðja háttv. deild velvirðingar á því, að sökum tímaskorts er ekki víst að jeg hafi í brtt. samræmt alla staði frv. við breytingar mínar eins rækilega og þurft hefði. En það mætti gera til 3. umræðu, ef þær ná fram að ganga.