14.04.1921
Neðri deild: 43. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2130 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Eiríkur Einarsson:

Hæstv. fjrh. (M. G.) vítti mjög formið á brtt. okkar, og þótti honum sjerstaklega upphaf till. óverjandi: „Nú hefir bankinn takmarkað fje til umráða “.

Jeg held nú einmitt, að þetta orðalag eigi mjög vel við, ef miðað er við það hártoganalaust, að bankinn getur fengið mjög mikið fje til umráða, ef veðbrjefin seljast bæði fljótt og vel. Hver, sem því vill skilja, hlýtur að geta skilið, hvað átt er hjer við með orðinu takmörkun. En ef hjer á að fara út í orðhengilshátt, þá býst jeg við, að margt megi finna bæði í öðrum þingskjölum og í ræðum háttv. þm.

En annað, sem fram kom í ræðu hæstv. fjrh. (M. G.), fanst mjer þó meiru skifta, og það var, að honum þótti of þröngt til orða lekið í till. minni, að miða við lán til jarðræktar, og taldi, að t. d. jarðakaup gætu ekki heimfærst þar undir. Þessu vil jeg svara því, að þegar jeg talaði um þessa till. mína, nefndi jeg sem dæmi hús og þess háttar, og áttu þá jarðakaupin eins að geta, og ekki síður, heimfærst undir orðalag till. eins og húsin; þannig er því varið, að með góðum vilja, þá má leiða eitt af öðru. Og svo mun mega gera hjer, ef bankastjórinn yrði ólíkur fjármálaráðherra og frjálsmannlegur, eins og sá maður er, sem hefir samið frv. og líklegur er til forstöðu við hinn nýja banka. (M. G.: Ekki verður hann nú altaf). Nei, ekki heldur hæstv. fjrh. með sínar skýringar.

Hævstv. fjrh. (M. G.) sagðist einnig lesa það út úr orðum mínum, að jeg hefði lítið traust á landbúnaðinum, og færði það til, að jeg hefði sagt, að brjef jarðræktardeildarinnar mundu seljast ver heldur en veðbrjef bankans sjálfs. En þetta var ekki sagt í neinu óvirðingarskyni við landbúnaðinn, heldur af því, að það er algild regla, að stór stofnun muni selja veðbrjef sín betur en litlar sjerkreddustofnanir. Og leyfi jeg mjer að kalla þessa fyrirhuguðu jarðræktardeild því nafni.

Hæstv. fjrh. (M. G.) mæltist að lokum til þess, að við tækjum till. aftur. Því get jeg þegar svarað fyrir mitt leyti, að jeg vil alls ekki taka till. aftur. Jeg tel ákvæðin, sem í henni eru, svo mikilsverð, að hún má alls ekki takast aftur, nema því aðeins að annað enn betra komi í staðinn. Og það get jeg gengið inn á, að ef hæstv. fjrh. (M. G.) eða aðrir Háttv. þm. vilja við 3. umr. málsins koma fram með till., er gengur í sömu átt og mín, en sem fer lengra, þá mun jeg hiklaust stíga sporið líka og greiða atkvæði með henni; það væri mjer auðvitað kærast, ef treysta mætti að fram gengi.

Jeg mun því hiklaust láta þessa till. koma til atkvæða nú, og sjá hvað setur um frekari breytingar.