07.03.1921
Efri deild: 16. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

32. mál, friðun rjúpna

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg er nefndinni þakklátur fyrir það, sem hún hefir gert. Það er mjög skynsamlegt, þó jeg fyrir mitt leyti hefði óskað að þessi fyrsti friðunartími, samkvæmt bráðabirgðalögunum, hefði verið lengdur. Jeg læt það þó vera, því að það er hægt að lengja hann seinna. Svo er breytingin, sem nefndin hefir gert á friðunartímanum, mjög heppileg.

En jeg stóð upp sjerstaklega til þess að spyrja lögfræðinga deildarinnar, hvort það sje formlega rjett að hafa tvenn lög um sama efni, sem ákveða sitt hvor. Þessi friðunarlög ákveða, að friðunartíminn 7. hvert ár nái frá 1. október til 30. sept. árið eftir, en í hinum almennu fuglafriðunarlögum er gert ráð fyrir, að hann sje almanaksárið. — Jeg vil því spyrja, hvort eigi þurfi að gera breytingu á hinum almennu fuglafriðunarlögum, hvað þetta atriði snertir. Því mjer skilst, að hjer sjeu tvenn lög um sama efni, meðan þetta ákvæði hinna almennu fuglafriðunarlaga er ekki felt úr gildi.