16.04.1921
Neðri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Jeg ætla fyrst að minnast á eitt lítið atriði, sem ekki kemur við brtt. mínum. Háttv. frsm. meiri hl. (Jak. M.) hefir þrisvar gert að umtalsefni afstöðu háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.), í sambandi við hann sem bankastjóra. Til þess er lítil ástæða, og er það í litlu samræmi við það, að sjálft frv. ætlast til þess, að tveir af bankastjórum Landsbanka Íslands skuli vera meðstjórnendur bankans fyrst um sinn, og þannig skipa meiri hluta stjórnar hans. Jeg held, að það sanna í máli þessu sje, að ekki þurfi að gera ráð fyrir mótstöðu af hendi landsbankastjórnarinnar gegn þessum veðbanka. Jeg er miklu hræddari um, að þessari stofnun muni ganga ver að selja brjef sín, er hún missir það samband við Landsbankann, er veðdeildin hafði. Jeg held, að öllum sje það ljóst, að brjefin hafi selst betur í veðdeildinni, einmitt vegna sambands hennar við bankann.

Þá vil jeg minnast á brtt. mínar og þau andmæli, sem komið hafa fram gegn þeim hjer í deildinni. Það hefir verið sagt, einkum af háttv. 1. þm. Árn. (E. E.), að þær hefðu í för með sjer óþarfa aukning bókfærslu og skriffinsku. Þetta er alveg tilhæfulaust, eins og háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) hefir rjettilega bent á. Þessi fasteignabanki byrjar með því að starfrækja 5 deildir, og þó sú 6. komi í viðbót, þá skiftir það engu máli. Það þarf ekki að gefa út fleiri bankavaxtabrjef, og það þarf heldur ekki að gefa út fleiri skuldabrjef eða veita fleiri lán. Bókfærslan er öll sú sama og áður, nema ef þarf að skifta henni niður í fleiri bækur en ella.

Þá kem jeg að öðru mikilvægara atriði, sem fundið hefir verið að. Háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) talaði annarsvegar um það, að brtt. mínar veiktu fyrirtækið í heild sinni, og hjelt því hins vegar fram, að jarðræktardeildin væri lakar trygð en bankinn í heild sinni. Þessu hvorutveggja skal jeg nú svara.

Það nær ekki nokkurri átt, að tillögur mínar veiki stofnunina, þar sem þær fara fram á, að stofnsjóðurinn verði aukinn úr 3 upp í 4 miljónir kr. Það er þó miklu fremur styrkur. Raunar fer jeg fram á, að ekki skuli skylt að leggja fram allar þessar 4 miljónir kr. þegar í stað, því að mjer hafði ekki hagkvæmst ráð til þess, en jeg kannast við, að það er rjett athugað hjá háttv. frsm. meiri hl. (Jak. M.), að þetta má gera á þann hátt, að gefin sjeu út ríkisskuldabrjef, og gæti jeg því fallist á þá breytingu á tillögu minni, að alt stofnfjeð yrði lagt fram á þennan hátt þegar í upphafi, og þá er ekki hægt að tala um, að stofnunin sje veikt.

Þá kem jeg að hinu atriðinu, jarðræktardeildinni. Jeg skildi fyrst af ummælum háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), hvað átt hefði verið við með áður fram komnum ummælum frá háttv. 1. þm. Árn. (E. E.), að gert væri ráð fyrir því í till. mínum, að tryggingarnar í 7. gr. nái ekki til bankavaxtabrjefa jarðrækrtardeildarinnar. Þetta er misskilningur. Stofnsjóður jarðræktardeildarinnar er henni til tryggingar, og stofnsjóður aðaldeildar er þeirri deild sjerstaklega til tryggingar, en hinar tryggingarnar eru sameiginlegar og óskiftar; það er ábyrgð ríkisins og varasjóðurinn. Yfir höfuð gera mínar brtt. engar breytingar á tryggingarákvæðum 1. liðs 7. gr. Þótt jeg helst hefði viljað tvær lánsstofnanir, þá hefi jeg ekki í brtt. mínum farið svo langt. Stofnunin er aðeins ein, því varasjóðurinn er einn, svo og aðrar tryggingar. Af þessu hefir svo loks verið dregin sú ályktun, að brjef jarðræktardeildarinnar seldust ver en hin. Sú ályktun fellur auðvitað burt með forsendunum. Jeg geri ekki ráð fyrir því, en skal þó viðurkenna, að ef um sölu erlendis væri að ræða, þá gæti hugsast, að lítill markaður væri fyrir jarðræktarbrjef þar. Jeg get ímyndað mjer, að erlendis þyki varhugavert að kaupa brjef, trygð af ræktun lands, er liggur jafnnorðarlega og Ísland. En jeg held, að frv., eins og það er, spilli ekki síður fyrir sölu hinna brjefanna. Menn í útlöndum verða tregari til að verja fje í fyrirtæki á því landi, sem þeir hafa ekki trú á. Þess vegna er hentugra að taka jarðræktardeildina út úr, enda verður altaf markaður fyrir brjef þeirrar deildar innanlands.

Hæstv. atvrh. (P. J.) vildi ekki „gera sjer miklar skrúplur“ út úr togstreitunni milli kaupstaða og sveita. Það er leiðinlegt að heyra slíkt, en það er ekki óalgengt, að menn mi á tímum geri sjer heldur far um að auka þá togstreitu, þótt ekki væni jeg hæstv. atvrh. (P. J.) um neitt slíkt. En jeg verð að líta svo á, og umræður í þessari háttv. deild hafa sýnt það, að það er ekki að ófyrirsynju sagt, að með frumvarpinu sje stofnað til togstreitu milli kaupstaða og sveita. Sú togstreita er beinlínis komin hjer inn í deildina með brtt. á þskj. 258 og 320. Og jeg er ekki í neinum vafa um það, að takist ekki að afgreiða þetta mál svo, að hjá þessari togstreitu verði komist, þá verður það fyrirtækinu til hins mesta hnekkis. Þess vegna er best að stilla svo í hóf, að ekkert verði úr slíku, og að því lúta brtt. mínar, að skilja ræktunarsjóðinn frá. Hann verður ávalt ásteytingarsteinninn, og honum þarf að ryðja úr vegi. Sú tillaga er hvorki af því fram komin, að jeg beri sjerstaklega hag kaupstaðanna eða hag sveita fyrir brjósti, heldur af því, að jeg vil, að hver fái sitt.

En svo geri jeg ráð fyrir, að lánveitingar til jarðakaupa og húsabygginga falli undir aðaldeildina. Hæstv. atvrh. (P. J.) gerði ekki alveg rjettan samanburð, að því er mjer fanst, er hann sagði, að það væri ótækt, að það væri ekki eins greiður aðgangur að lánum til jarðakaupa í sveitum og til húsabygginga í kaupstöðum. Jeg held, að það sje nú ekki svo vont, að ógreiðari aðgangur sje til þess að kaupa jarðir, því að slík lán eru oft misbrúkuð, og það væri ilt, ef stofnunin stuðlaði að aukningu jarðabrasks. Og mjer er það beinlínis ánægja að sjá það, að höfundi frumvarpsins hefir verið það ljóst, að það megi ekki verða svo rúmt um jarðakaupalán, að það verði til þess að koma á jarðaprangi. En jeg skal kannast við það, að það ætti að vera jafngreiður aðgangur að lánum til jarðabóta og nauðsynlegra húsabygginga í sveitum eins og til húsabygginga í kaupstöðum.

Þá kem jeg að brtt. á þskj. 258 og 320. og verð jeg að segja, að jeg get hvoruga þeirra aðhylst. Að efninu til fellur mjer betur við till. á þskj. 258, þótt hún sje nokkuð óhönduglega orðuð. En hin till. væri ágæt, ef hún stæði í frv. til laga um sjerstaka lánsstofnun fyrir landbúnaðinn. Jeg skyldi þá hafa greitt henni atkvæði mitt, en þar sem nú er verið að ræða um stofnun fasteignabanka, sem á að vera jöfnum höndum fyrir sveitir og kaupstaði, þá er till. mjög ósanngjörn. Því að það er auðsætt, að fjárráð þessarar stofnunar verða um langt árabil ekki meiri en svo, að eingöngu yrði hægt að veita lán til landbúnaðar, ef till. næði fram að ganga. Það væri því sama og að gera bankann að stofnun fyrir landbúnaðinn, og inn í hana væri svo tekin, það er í reyndinni lögð niður, sú stofnun, er verið hefir fyrir kaupstaðina, veðdeild Landsbankans.

Háttv. frsm. (Jak. M.) gat þess, að það mundi mega gefa út sjerstök brjef, til styttri tíma en önnur brjef, eftir frumvarpinu óbreyttu. Jeg held, að frv. geri alls ekki ráð fyrir því, en hins vegar er gert ráð fyrir því, að flokkarnir verði tveir, með mismunandi háum vöxtum.

13. gr. frv. gerir ráð fyrir því, að sjerstök virðing megi undan falla, ef lánið fer ekki fram úr af skattvirðingarupphæð fasteignarinnar. Líklega er átt við, að lán, sem veitt er að viðbættu áður fengnu láni, fari ekki fram úr hálfri skattvirðingarupphæðinni. Segjum nú svo, að bóndi treysti sjer til að rækta svo og svo mikið á ári, og biður um lán til þess. Nú mundi bankinn ekki treysta sjer að veita slíkt lán fyrir meira en 1, 2 eða 3 ár. En þegar sá tími er liðinn, þarf bóndinn að fá viðbótarlán. Þá er það mjög Óhagkvæmt, að fram þurfi að fara ný virðing á allri eigninni. Að þessu efni lýtur 6. brtt. mín, að í reglugerð megi setja, að viðbótarlán úr jarðræktardeild megi veita, án þess að nýtt mat á eigninni í heild fari fram. Þetta ákvæði þarf að komast inn í frv., ef jarðabótalán eiga að verða almenn, en það er þar ekki nú.

5. brtt. mín rýmkar heimildina til veitinga á jarðræktarlánum. Jeg tel forsvaranlegt að gera það, ef þau lán eru sett í sjerstaka deild.

Jeg verð að segja það, að þessar till. mínar eru ekki sprottnar upp úr umræðum málsins hjer í deildinni. Efni þeirra er gamalt í huga mínum, því að mjer hefir lengi verið ljóst, að ef lánveitingar eiga að geta fleygt ræktun landsins áfram, þá þarf að vera greiðari aðgangur að þeim lánum en að fasteignaveðlánum alment, en til þess þarf að vera sjerstök lánsstofnun, eða sjerstök deild í lánsstofnun, fyrir þau lán. Með tímanum þarf að rýmka ennþá meira um þessi lán en brtt. mínar fara fram á, og vil jeg minnast á eitt atriði því viðvíkjandi.

Brtt. mínar gera eingöngu ráð fyrir jarðræktarlánum til jarðeigenda. En ef jarðrækt landsins á að komast í gott horf, þá þarf einnig að vera unt að veita ábúendum slík lán, þótt ekki eigi þeir jarðirnar. Jeg sje enga leið fyrir veðbankann að veita þessi lán samkvæmt frv., en ef stofnuð verður sjerstök jarðræktardeild, þá er nokkuð öðru máli að gegna, og mætti þá finna til þess einhver ráð. Ef til vill þarf þá að gefa út til þess sjerstakan flokk skuldabrjefa, en út í það skal jeg ekki fara nú. Jeg tel mikla þörf á, að slík lán geti verið fyrir hendi, sjerstaklega handa þeim ábúendum, sem hafa langan ábúðartíma. Mætti tryggja slík lán í sambandi við ákvæði ábúðarlaga með því, að jarðeiganda sje gert að skyldu að kaupa jarðabótina, þegar leiguliðinn flytur af jörðinni.

En þetta held jeg, að verði afarerfitt að sameina veðbankanum, eins og hann verður eftir frv., nema að það veiki traust hans.