16.04.1921
Neðri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (2317)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Gunnar Sigurðsson:

Jeg skal aðeins stikla á stærstu steinunum.

Út af ræðu hæstv. atvrh. (P. J.) vil jeg taka það fram, að jeg tel drátt á framkvæmdum þessa máls afaróheppilegan og líka þarflausan. Frv. þetta er svo vandlega samið og vel athugað, að betur undirbúið frv. mun ekki hafa komið fyrir þingið í langa tíð. Jeg held því, að ekki sje að vænta betri undirbúnings, þótt málið yrði nú saltað í kjöltu stjórnarinnar.

Háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) talaði um, að bankinn yrði pappírsstofnun; slíkt eru ómaklegar hrakspár. enda fjarstæða, þar sem bankinn fær strax nokkurt veltufje. Hann harmaði ennfremur að ræktunarsjóðurinn legðist niður. Eins og nú standa sakir. munar sáralítið um lán þau, er veitt eru úr ræktunarsjóði út um sveitir, en með brtt. okkar háttv. þm. Eyf. (St. St.) er einmitt farið fram á það, að sveitirnar sitji fyrir lánum, og er það mikilsvert atriði fyrir sveitarhjeruðin.

Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) talaði um togstreitu milli kaupstaðanna og sveitanna, og .sagði, að við vildum með brtt. okkar gera sveitunum hærra undir höfði. Þetta má satt vera. En þess ber þá að gæta, að sveitunum hefir hingað til altaf verið gert lægra undir höfði í þessu efni.

Háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) þarf jeg fáu að svara. Það hefir verið margsýnt fram á það áður, að ástæður hans fyrir því, að vera á móti frv. eru sáraveigalitlar. Það má að vísu setja sig á háan hest og spá hrakspám um sölu bankavaxtabrjefanna. En jeg get þá með sama rjetti spáð hinu gagnstæða, að brjefin í framtíðinni muni seljast ágætlega, og stuðst þar ekki við ómerkilegri líkur um jafntrygg brjef.