19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2166 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Fjármálaráðherra (M. G.) Það eru nokkur orð um brtt. mína á þskj. 345. í raun og veru er það ekkert nýtt, sem jeg þar fer fram á, heldur hefi jeg tekið það alt fram við 2. umr. málsins.

Aðalbreytingin er í því fólgin að takmarka tillagið til varasjóðs, þannig, að það fari ekki fram úr 3 miljónum króna, en að ákvæðið um það, að alt andvirði seldra þjóðjarða renni í stofnsjóðinn, falli niður. Jeg vil í þessu sambandi benda á það, að ekki er of mikið fje í ríkissjóði, og því ekki hyggilegt að binda fje hans í sjóðum, fram yfir það, sem nauðsynlega þarf. Og jeg vil, að 3 milj. króna sje nægilegt framlag til stofnsjóðsins. Hins vegar getur mikið fje komið inn fyrir þjóðjarðasöluna, ekki síst ef seld yrðu sum kauptún landsins, t. d. Vestmannaeyjar. Um þetta hljóðar 1. brtt. mín, og er 2. brtt. afleiðing þar af.

Jeg hefi áður tekið það fram, að mjer þykja vextir af stofnfjenu of lágir, og því kem jeg með brtt. um að hækka þá úr 2% upp í 4%. Bankinn lánar þetta fje út aftur með 6%, og því finst mjer það sæmilegur gróði fyrir hann á stofnfjenu, þótt hann greiði af því 4% vexti. Brjef bankans ættu að vera vel trygð, þó ekki myndist afarstór varasjóður undireins. Þetta er svo trygg stofnun, þar sem hún aðeins lánar út á 1. veðrjett, að ekki ætti að þurfa að gera ráð fyrir tapi. Enda hefir og sú raunin á orðið um veðdeild Landsbankans.

Á 4. brtt. við 16. gr. legg jeg ekki neina sjerstaka áherslu; þykir þó betra og rjettara, að hún verði samþ., af því hún er í samræmi við gildandi lög.

5. og 6. brtt. er um það, að bankastjórar Landsbankans og endurskoðendur skuli ekki hafa sjerstök laun fyrir störf sín við veðbankann. Eru þær fram komnar vegna þess, að jeg álít, að bankastjórarnir muni losna við eins mikil störf eins og þessum nýju störfum nemur. Auðvitað á þetta aðeins að gilda meðan sambandið helst milli bankanna.

Sama máli er að gegna um endurskoðendur reikninganna. Sýnist það óþarfi að fara að búa hjer til tvo nýja endurskoðendur.

Þessar brtt. mínar snerta ekki aðalatriði málsins, en frá sjónarmiði ríkissjóðsins lítur frv. talsvert öðruvísi út, ef þær verða samþ.

Það ætti að muna nálægt einni miljón fyrir ríkissjóðinn á næstu 10 árum, en þó ekki að skaða bankann, því brjef hans verða samt sem áður vel trygð.