19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2167 í B-deild Alþingistíðinda. (2321)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg er í raun og veru ekki við því búinn að svara þessum brtt. hæstv. fjrh. (M. G.), þær hafa komið hjer fram skyndilega og sem þruma úr heiðskíru lofti. En fjarri fer því, að mjer sýnist þær yfirleitt vera til bóta. Seinni brtt. legg jeg þó ekkert kapp á. En hinar munu vera sprottnar af misskilningi og hljóta að verða til þess að veikja bankann. Verð jeg því að telja þær óheppilegar.

Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að ef brtt. sínar verði samþyktar, þá græði, eða spari, ríkissjóður 1 miljón á næstu 10 árum. En ef nú frv. verður samþ. óbreytt, þá er aðeins sá munurinn, að landið leggur hjer 1 miljón í sjóð, í stað þess að eyða því fje jafnharðan. Er jeg hissa á, að hæstv. fjrh. (M. G.) skuli setja sig á móti slíku, því þessari miljón er þá komið undan eyðslu, og hefði mjer fundist það honum líkara að vilja stuðla að því.

Þá talaði hæstv. fjrh. (M. G.) um það, að bankinn gæti vel borgað 4% af stofnsjóði, þar sem hann mundi taka 6% af lánum. En þetta er alls ekki rjett. Bankinn mun ekki fá 6% af skuldabrjefum sjóðanna, og um vexti af lánum í framtíðinni er ekkert hægt að segja; geta bæði hækkað og lækkað. Og ef illa gengur og vextir lækka að mun, þá getur vel svo farið, að bankinn geti alls ekki greitt starfskostnað bankans, og einmitt til þess að varna því, að svo geti farið, er þetta ákvæði í frv., að bankinn skuli aðeins greiða 2% af stofnfjenu, meðan hann er að koma undir sig fótunum.

2. og 3. brtt. eru í sambandi við 1. brtt., og legg jeg því á móti, að þær verði samþyktar. Þær skifta ríkissjóðinn litlu, en veikja bankann að nokkrum mun.

Við brtt. við 16. gr. hefi jeg ekkert að athuga. Þótt slík ákvæði sjeu í lögum um slíka banka erlendis, þá er auðvitað ekki þar með sagt, að þau sjeu nauðsynleg eða að slíkt eigi við hjer. Held þó að þetta sje frv. fremur til bóta.

Sama er að segja um brtt. um endurskoðendurna, við hana hefi jeg ekkert að athuga.

Hitt er miklu athugaverðara, að ætla ekki bankastjórum Landsbankans nein laun fyrir störf sín við þennan fyrirhugaða banka. Jeg benti á það við 2. umr. málsins, að þó ef til vill störfin í sjálfu sjer verði ekki meiri, þá breytist aðstaðan til þess að framkvæma þau mjög svo. Áður gátu bankastjórarnir tekið veðdeildarstörfin jöfnum höndum með öðrum bankastjórnarstörfum. En veðbankastörfunum þurfa þeir að ætla sjerstakan tíma. Sýnist því ekki nema sanngjarnt, að þeir fái fyrir það sjerstaka þóknun.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um málið að öðru leyti. Það er áður rætt og þm. búnir að taka afstöðu til þess.