19.04.1921
Neðri deild: 47. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2174 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

100. mál, Ríkisveðbanki Íslands

Sigurður Stefánsson:

Eins og kunnugt er, bar jeg fram till. til rökstuddrar dagskrár við fyrstu umræðu, af því jeg áleit málið ekki nægilega undirbúið. En eftir tillögum góðra manna hjer í deildinni, tók jeg till. aftur í svipinn, þar til sjeð yrði, hverjar umbætur yrðu gerðar á frv. í meðferð deildarinnar. Nú er málið komið til 3. umr., eftir miklar umræður, en það hefir sannfært mig um, að dagskrá mín var orð í tíma talað, því málið hefir í rauninni ekkert grætt við þær enn. Jeg sje ekki betur en fylgi manna við frv. sje eingöngu bygt á von og trú. Frv. hefir allmikinn kostnað í för með sjer, stofnun 3 nýrra embætta með allháum launum. En veltufje handa bankanum er í rauninni ekkert. Jeg kalla ekki sjóðina veltufje, því að þeir eru fastir og óhreyfanlegir. Það er því í raun og veru verið að setja á laggirnar stjórn yfir peningalausan banka.

Mjer er sárast um ræktunarsjóðinn, sem á að hverfa í þessa ríkisveðbankahít. Það er hægt að leiða rök að því, að bændur muni ekki hafa eins hagkvæm not af þessum sjóði, eftir að þessi banki hefir verið stofnaður, eins og nú, og eiga þeir þó nógu erfitt uppdráttar með lántökur nú.

Mjer er sjerstaklega ant um, að þing og stjórn leggist á eitt um að koma á fót nothæfri og hagkvæmri lánsstofnun fyrir landbúnaðinn. En með þessu verður það ekki gert. Embættiskostnaðurinn mun fyrst um sinn eta mikinn hluta ræktunarsjóðsvaxtanna, sem nú ganga nær því óskiftir til hjálpar landbúnaðinum. Og jeg sje hvergi veltufje til að byrja með, nema trú og von um, að bankavaxtabrjefin seljist. En sje litið til reynslunnar, þá virðist það mjög hæpið að lifa í þeirri von, að brjefin muni fljúga strax út og þessi banki er stofnaður. Það er sjerstaklega hæpið eins og fjárhagur einstaklinganna er nú. Þeim veitir ekki af öllu sínu fje, til þess að kaupa lífsnauðsynjar. Það er engin ástæða til að ætla, að nafnið geri svo mikið, að menn láti lífsnauðsynjar sínar sitja á hakanum, og kaupi í þess stað þessi Ríkisveðbankabrjef, þó að nafnið sje veglegra en „veðdeildar“ brjef.

Jeg tók það fram við 1. umr., að mjer líkaði ekki undirbúningur málsins. Ekki af því, að jeg vantreysti höfundi frv., en hann er þó ekki meira en maður, og „betur sjá augu en auga“. Það er skyldaþingsins að láta þetta mál ganga í gegnum þann hreinsunareld, að stjórnin hafi nægan tíma til að athuga það rækilega, áður en kemur til kasta þingsins að ráða úrslitum. Nú hefir hæstv. atvrh. (P. J.) kvartað hjer um það, að hafa ekki haft tækifæri til að íhuga málið sem skyldi.

Hjer er vikið frá þeim grundvelli, sem þál. frá 1919 var bygð á, og eingöngu var miðuð við lánsstofnun fyrir landbúnaðinn. Jeg játa, að mjer er ekki svo ant um lánsstofnun fyrir kaupstaðina, að jeg vilji offra fyrir hana fríðindum frá landbúnaðinum. Jeg hafði ætlað mjer að fara nokkrum orðum um kirkjujarðasjóðinn í þessu sambandi, en háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) hefir tekið af mjer ómakið. En hvar á prestlaunasjóðurinn að fá þessa upphæð, sem frá honum er tekin? Jeg veit ekki, hvort höfundur frv. hefir athugað það, en þar sem jeg finn enga athugasemd um þetta við frv., og ekkert hefir komið fram um það frá nefndinni í umræðunum, þá er mjer næst að halda, að hlaupið hafi verið yfir það atriði. En þetta er aðeins ný sönnun þess, að málið þarfnast rækilegrar athugunar hjá stjórninni.

Jeg held, eins og hæstv. fjrh. (M. G.), að það sje varhugavert fyrir ríkissjóð að binda ræktunar-, kirkjujarða- og viðlagasjóðina fasta í þessari stofnun. Eftir öllum veðurmerkjum að dæma mun ríkissjóði áður en langt um líður ekki veita af þeim styrk, sem hann getur haft af þessum sjóðum, sjerstaklega viðlagasjóðnum.

Jeg leyfi mjer að afhenda forseta svo hljóðandi till. til rökstuddrar dagskrár:

„Í því trausti, að stjórnin taki mál þetta til rækilegrar athugunar og undirbúnings, sjerstaklega að því, er kemur tit sjerstakrar lánsstofnunar fyrir landbúnaðinn, og leggi frumvarp í þá átt fyrir Alþingi, svo fljótt, sem nokkur tök eru á að koma því máli í nothœfa framkvæmd, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskránni“.

Jeg er ekkert smeykur við að bera fram þessa dagskrá, þó jeg búist við, að hún verði feld hjer. Jeg þarf hvorki að standa blár nje bleikur fyrir bændastjett þessa lands fyrir þessa dagskrá, sem jeg flyt af heilum hug til landbúnaðarins.